Þess krafist að stjórnvöld falli frá fyrningarleið

Frá fundinum í kvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í …
Frá fundinum í kvöld. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pontu. mynd/Sigurgeir

Í ályktun baráttufundar í Höllinni í Vestmannaeyjum í kvöld er þess krafist, að stjórnvöld falli þegar í stað frá áformum um svonefnda fyrningarleið í sjávarútvegi, frá áformum um að leggja útflutningsálag á ísfisk og afnema sjómannafslátt í skattakerfinu. 

Segir í ályktuninni, að íslenskt samfélag þurfi síst á því að halda nú, að höggvið sé að rótum sjávarútvegsins, þeirrar atvinnugreinar sem öðrum fremur skapi þjóðinni gjaldeyristekjur, stöðugleika og atvinnu landið um kring. Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi sé  vissulega umdeilt og ekki fullkomið fremur en önnur mannanna verk. Það sé hins vegar sameiginlegt verkefni stjórnmálamanna og þeirra sem hagsmuna eiga að gæta, að fjalla sameiginlega um hugsanlegar breytingar á kerfinu í stað þess að stjórnvöld birti einhliða stríðsyfirlýsingar í garð fólks og fyrirtækja í atvinnugreininni.

Ályktunin var samþykkt með lófataki í fundarlok en starfsfólk  í samkomuhúsinu Höllinni taldi  að um 350 manns hefði setið fundinn og miðaði þá við fjölda stóla sem setnir voru í salnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert