Svæðisfréttamönnum sagt upp

Útvarpshúsið.
Útvarpshúsið.

Fréttamönnum Ríkisútvarpsins á Akureyri, Vestfjörðum og Austfjörðum var sagt upp í dag. Þá var þulum Sjónvarpsins einnig sagt upp störfum að því er kemur fram á vefnum Pressunni. Alls mun um hálfur þriðji tugur starfsmanna RÚV hafa fengið uppsagnarbréf í gær og dag.

Fréttamönnunum Guðrúnu Sigurðardóttur á Ísafirði, Karli Eskil Pálssyni á Akureyri og Ásgrími Inga Arngrímssyni á Egilsstöðum var meðal annars sagt upp störfum en á vef DV segir, að til standi að leggja niður svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins á Ísafirði og Egilsstöðum.

Karl Eskil sagði  við mbl.is, að það væri vissulega talsvert högg að fá uppsagnarbréf eftir 19 ára starf hjá Ríkisútvarpinu. „Ég fór nú bara heim og hellti mér upp á kaffi," sagði hann.

Auk Karls Eskils var tæknimanni sagt upp á Akureyri.

Fréttamönnum var einnig sagt upp í Reykjavík, þar á meðal Guðrúnu Frímannsdóttur og Jóhönnu Margréti Einarsdóttur.  

Boðað hefur verið til starfsmannafundar á Ríkisútvarpinu nú eftir hádegið þar sem Páll Magnússon, útvarpsstjóri mun gera starfsmönnum grein fyrir breytingunum sem nú verða á starfsemi fyrirtækisins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert