Þrjú lönd koma til greina

Reuters

Norska blaðið Dagbladet hefur í kvöld eftir Einari Karli Haraldssyni, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, að íslensk stjórnvöld telji að þrjú lönd komi til greina til að miðla málum í Icesave-deilu Íslands við Breta og Hollendinga. Þetta séu Þýskaland, Frakkland og Noregur.

Stöð 2 sagði í gærkvöldi, að íslensk stjórnvöld hefðu haft samband við ýmis lönd til að kanna hvort möguleiki sé á að þau taki að sér sáttasemjarahlutverk. Sagði Stöð 2 að Norðmenn kæmu þar helst til greina.

Norska blaðið Aftenposten segir, að norska utanríkisráðuneytið hafi í kvöld ekki viljað staðfesta þessar upplýsingar. Blaðið hefur hins vegar eftir Marte Lerberg Kopstad, talsmanni ráðuneytisins, að norsk stjórnvöld hafi náið samráð við íslensk stjórnvöld en vilji ekki upplýsa hvað þeim hafi farið á milli. Norðmenn hafi nú tekið að sér ákveðið hlutverk fyrir Íslendinga.

Aftenposten segir, að Kristilegi þjóðarflokkurinn í Noregi vilji, að norsk stjórnvöld staðfesti við Ísland, að Íslendingar fái lán frá Noregi án tillits til þess hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-lögin fer.   

Flokkurinn lagði í síðustu viku fram þingsályktunartillögu þessa efnis á Stórþinginu í Ósló. Telur flokkurinn mikilvægt, að óvissu um afstöðu Noregs í málinu sé rutt úr vegi og ríkisstjórnin veiti Íslendingum skýra tryggingu fyrir því að lánið verði veitt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert