Ekki fræðimanns að leggja mat á ákærur

Nokkrir af sakborningunum koma í Héraðsdóm Reykjavíkur í síðustu viku.
Nokkrir af sakborningunum koma í Héraðsdóm Reykjavíkur í síðustu viku.

Ragnheiður Bragadóttir lagaprófessor hefur svarað fyrirspurn Borgarahreyfingarinnar sem send var lagadeild Háskóla Íslands fyrir helgi, um hvort ákæra á hendur 9 mótmælendur við Alþingi í fyrra sé viðeigandi.

Ragnheiður segist ekki telja það sitt hlutverk sem fræðimanns að leggja mat á það hvort ákærur í einstökum málum sem eru til meðferðar í réttarkerfinu séu réttar eða viðeigandi, „enda hef ég ekki aðgang að þeim gögnum sem saksóknari hefur þegar hann tekur ákvörðun um saksókn."

Þegar dómar hafa verið kveðnir upp taki hinsvegar við hlutverk fræðimannsins að skýra þá og túlka, að sögn Ragnheiðar, og gagnrýna með lögum ef tilefni eru til. Ragnheiður bendir þó á lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem segir að það sé hlutverk ákæruvalds, þ.á.m. ríkissaksóknara, að gefa út ákærur. „Þá er það hlutverk þeirra að tryggja að þeir sem fremja afbrot verði beittir lögmæltum viðurlögum og meginreglan er sú að þeir taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds.
 
„Í ákæru tiltekur ákærandi fyrir hvaða háttsemi er ákært og hvaða lagaákvæði hann telur eiga við um hana. Dómstólar skera síðan úr um hvort sakborningar hafi brotið gegn viðkomandi lagaákvæði, þ.e. um sekt þeirra eða sýknu. Þá er það meginregla í íslenskum rétti að ákveða refsingu neðarlega innan refsimarka lagaákvæða. Þótt lágmarksrefsing sé tiltekin í lagaákvæði er unnt að dæma vægari refsingu ef refsilækkunarástæður eru fyrir hendi og jafnvel ákveða að refsing skuli falla niður.

Fyrirspurn Borgarahreyfingarinnar og svar Ragnheiðar fyrir hönd lagadeildar má lesa í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert