Gráti nær yfir efni skýrslunnar

Frá blaðamannafundinum í morgun.
Frá blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, nefndarmenn í rannsóknarnefnd Alþingis vegna efnahagshrunsins voru spurðir um það á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í morgun, hvort þeir sæju íslenskt samfélag öðrum augum eftir störf sín við gerð rannsóknarskýrslunnar.

Tryggvi varð fyrir svörum. Rakti hann í stuttu máli aðkomu sína að öðrum stórum átakamálum í íslensku samfélagi, Hafskipsmálinu og gjaldþroti Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þrátt fyrir það þyrfti hann að viðurkenna að við gerð þessarar skýrslu hefði hann oft „verið gráti nær og mjög pirraður yfir því sem maður hefur séð.“

Páll og Tryggvi tilkynntu í morgun að nefndin þyrfti frest fram að lokum febrúarmánaðar, til viðbótar, til að ljúka gerð skýrslunnar.

„Að þau vandamál sem við erum að kryfja og gera þjóðinni grein fyrir skuli vera stærri og umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í upphafi er ekki á ábyrgð nefndarinnar. Þetta er vandamál okkar allra. Ég bið því bæðí þing og þjóð, að sýna okkur biðlund og veita okkur færi á að ganga frá skýrslunni,“  sagði Páll í upphafi fundarins.

Leiðrétting: Haft er eftir Tryggva Gunnarssyni í fréttinni að hann hafi sem lögmaður komið að gjaldþroti Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þar er rangt haft eftir en Tryggvi notaði orðið uppgjör, en ekki gjaldþrot, á fundinum í morgun. Sambandið varð aldrei gjaldþrota en fór í gegnum nauðarsamninga á sínum tíma. Beðist er velvirðingar á þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert