Búið að skjóta ísbjörninn

Ísbjörn sem skotinn var á Hrauni í júní 2008.
Ísbjörn sem skotinn var á Hrauni í júní 2008. mbl.is/Skapti

Búið er að skjóta ísbjörninn í Þistilfirði, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.  Mun bóndi hafa skotið dýrið, samkvæmt heimildum mbl.is. „Það er búið að fella það,“ segir Jón Stefánsson lögregluvarðstjóri á Þórshöfn í samtali við mbl.is.

Hann segir að dýrið hafi verið lítið. Það hafi verið skotið norðan við eyðibýlið Ósland.  Dýrið sást fyrst við bæinn Sævarland við Þistilfjörð um kl. 13.

Ágætlega hafi gengið að fella dýrið, sem hafi verið komið í námunda við sauðfé rétt áður en það var skotið. Það var fellt um kl. 15:40 að sögn Umhverfisstofnunar.

Aðspurður segir Jón að ekki hafi sést til fleiri dýra á svæðinu.

Umhverfisstofnun segir, að ákvörðun um að fella björninn hafi verið tekin á grundvelli niðurstöðu starfshóps, sem í kjölfar þess að tveir hvítabirnir gengu á land árið 2008, vann skýrslu um viðbrögð við landgöngu hvítabjarna fyrir umhverfisráðherra. Niðurstaða starfshópsins var sú að fella beri hvítabirni sem ganga á land.  Tekin verða sýni úr birninum til rannsókna.

Hvítabirnir eru stærstu landrándýr jarðar, stórhættulegir og óútreiknanlegir. Talið er að heimsstofn hvítabjarna telji 22.000 dýr í dag. Flesta hvítabirni er að finna í Kanada. Hvítabirnir eru á lista IUCN (Alþjóðanáttúruverndarsamtökin) yfir dýr í yfirvofandi hættu. Þrátt fyrir þetta styður hvítabjarnarráð IUCN sjálfbæra nýtingu á öllum 19 stofnum hvítabjarna. Um 800 dýr eru felld árlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert