Vilja að Íslendingar fái lán strax

Flokkahópur vinstri-grænna í Norðurlandaráði hvetur ríkisstjórnir norrænu ríkjanna til að greiða nú þegar út þau lán sem búið var að samþykkja að veita Íslendingum, og bíða ekki eftir að deilan við Hollendinga og Breta leysist. Þetta kemur fram í frétt frá Norðurlandaráði.

Flokkahópur vinstri-grænna (VSG) telur að Norðurlöndin verði að hjálpa Íslendingum að fá réttláta meðferð og raunsæjan samning. VSG leggur til að gerður verði samningur sem ekki grafi á neinn hátt undan íslensku þjóðfélagi.. Málið var rætt á fundi VSG á janúarfundi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn þriðjudaginn 26. janúar.

„Icesave-samningurinn hefur oft verið ræddur á norrænum vettvangi og í flokkahópi VSG. Eftir að forseti Íslands vísaði Icesave-samningnum til þjóðaratkvæðagreiðslu, eru Íslendingar í nýrri stöðu. Þeir hafa alltaf sagst myndu standa við skuldbindingar sínar. Umræðan snýst í fyrsta lagi um hvaða skuldbindinga er um að ræða og í öðru lagi á hvaða kjörum verður staðið við þær.

Íslendingar hafa ekki fengið tækifæri til að fá dómsúrskurð um hvernig innstæðutryggingakerfið á EES-svæðinu á að virka við algjört bankahrun í einu aðildarríkjanna, segir í yfirlýsingu frá VSG," samkvæmt tilkynningu frá Norðurlandaráði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert