Fara utan til funda vegna Icesave

Frá fyrri fundi formanna og talsmanna stjórnmálaflokkanna á þingi um …
Frá fyrri fundi formanna og talsmanna stjórnmálaflokkanna á þingi um Icesave-deiluna. Heiðar Kristjánsson

Forystumenn stjórnmálaflokkanna eru á leið utan til fundar við Hollendinga og Breta vegna Icesave-deilunnar. Morgunblaðið hefur staðfestar heimildir fyrir því að með í för séu formenn VG, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ekki er vitað hvort einhver sé frá Samfylkingunni en enginn fór frá Hreyfingunni.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er ekki um beinar samningaviðræður að ræða heldur meira upplýsingafundi. Munu forystumennirnir koma aftur til landsins á morgun, en þá kemur Alþingi saman að nýju.

Fyrstu fregnir hermdu að formennirnir myndu hitta viðskiptaráðherra Hollendinga en það er óstaðfest. Að líkindum mun það vera fjármálaráðherra Hollendinga, Wouter Bos, eða hans aðstoðarmenn. Forystumenn flokkanna komu saman til fundar í gær, og þar mun þessi ferð hafa verið ákveðin, herma heimildir blaðsins. Mikil leynd virðist hins vegar ríkja yfir ferðinni þar sem nánustu samstarfsmenn formannanna hafa verið þögulir sem gröfin, þegar mbl.is hefur leitað eftir nánari upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert