Vilja auka öryggi í Reykjavík

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, undirrituðu í dag tveggja ára samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH)  á sviði öryggis- og forvarnarmála.

Með samningnum er stefnt að fækkun innbrota, eignaspjalla og umferðarslysa í borginni um 5- 10% milli ára með reglulegum mælingum, viðeigandi viðbrögðum, eftirfylgni og eftirliti. Fulltrúar beggja aðila munu í framhaldi af því greina upplýsingarnar í því augnamiði að efna til viðeigandi aðgerða til að  auka öryggi, fækka slysum, skipuleggja forvarnir og grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana, að því er segir í tilkynningu.

Hanna Birna segir í fréttatilkynningu samninginn fela í sér ótvíræðan ávinning fyrir borgarbúa. „Með samningnum er stuðlað að sérþekkingu lögreglunnar á aðstæðum og þjónustu innan einstakra hverfa. Sú þekking að viðbættri öflugri samvinnu við starfsmenn þjónustumiðstöðvanna á án efa eftir að skila sér í árangursríkara forvarnarstarfi og auknu öryggi í hverfum borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert