Ísland enn á athugunarlista

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Matsfyrirtækið Standard & Poor's hefur lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs áfram á athugunarlista með neikvæðum horfum vegna áframhaldandi óvissu um erlent lánsfé.

Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's hefur sent frá sér álit þar sem fram kemur að lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs eru áfram á svokölluðum athugunarlista, að því er segir á vef Seðlabanka Íslands.

Þar kemur fram að óvissa ríkir áfram um aðgang að nægu erlendu lánsfé til að styðja við efnahagslega aðlögun Íslands og áætlun um afnám gjaldeyrishafta um leið og stefnt er að þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave‐lögin 6. mars 2010.

Lánshæfiseinkunnir fyrir Ríkissjóð Íslands, „BBB‐/A‐3“ í erlendri mynt og „BBB+/A‐2“ í innlendri mynt, verða áfram á athugunarlista með neikvæðum horfum næstu þrjá mánuði, til aprílloka 2010.

Búist er við niðurstöðu um lánshæfismatið þegar frekari upplýsingar um aðgang að erlendu lánsfé liggja fyrir, sem verður mögulega ekki fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Meiri tafir heldur en S&P bjóst við

„Þegar lánshæfiseinkunnir fyrir Ísland voru settar á athugunarlista var þess vænst að frekari upplýsingar lægju fyrir í lok janúar um áhrif synjunar forsetans á vilja stjórnvalda til að grípa til að annarra aðgerða til að endurvekja tiltrú fjárfesta sem og um aðgang hins opinbera að erlendu lánsfé. Ákvörðun um áframhaldandi lánveitingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ríkisstjórnum Norðurlanda til að styðja við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda hefur á hinn bóginn tafist lengur en við væntum.

Óvissa hefur skapast um erlent lánsfé vegna þess að forseti Íslands synjaði staðfestingar lögum sem hefðu heimilað ríkisábyrgð á tvíhliða lánum frá stjórnvöldum í Hollandi og Bretlandi til íslenska innstæðutryggingasjóðsins. Tilgangur þessara lána var að endurgreiða hollenskum og breskum stjórnvöldum fyrir bætur þeirra til innstæðueigenda í útibúum hins fallna Landsbanka í Hollandi og Bretlandi. Lausn Icesave‐málsins er forsenda fyrir tvíhliða viðbótarfjármögnun frá Norðurlöndum til aðstoðar Íslandi sem er hluti af samkomulagi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Vegna synjunar forsetans væntum við þess að útgreiðslur á þeim 2,3 milljörðum Bandaríkjadala sem eftir eru af samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn frestist. Ennfremur kunna forsendur áætlunarinnar að þarfnast endurskoðunar, hugsanlega með því að hækka markmið um frumjöfnuð ríkissjóðs.

Fjármögnunin er að okkar mati lykillinn að því að auka við gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans (nú u.þ.b. 2,5 milljarðar evra) og losa um þau gjaldeyrishöft sem sett voru í nóvember 2008. Það ræðst nú í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010 hvort Icesave‐löggjöfin tekur gildi eða ekki. Skoðanakannanir benda til að þorri landsmanna sé áfram andsnúinn lögunum og líklegt má telja að þau verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Árið 2009 samþykkti Alþingi svipaða löggjöf um ríkisábyrgð fyrir Icesave‐lánunum sem forsetinn undirritaði. Þau lög kváðu á um að ábyrgðin yrði ekki án fyrirvara og við álítum að meðal annars af þeirri ástæðu hafi hollensk og bresk stjórnvöld hafnað þeim.

Verði lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni gætu frekari samningaviðræður af pólitískum toga samt leitt til málamiðlunar sem væri ásættanleg fyrir allar þrjár þjóðir, hugsanlega fyrir atbeina hlutlauss sáttasemjara. Við álítum að komandi þingkosningar í Bretlandi gætu aukið á óvissu um hugsanlega málamiðlun. Við teljum einnig hugsanlegt að ríkisstjórnir Norðurlanda haldi áfram útgreiðslum tvíhliða lánanna án formlegs nýs samkomulags milli Íslands og hollenskra og breskra stjórnvalda, sem gæti losað um það lánsfé sem á vantar í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Raunar fór fyrsta útgreiðsla frá Norðurlöndunum fram um miðjan desember 2009, í kjölfar samkomulags ríkisstjórnarinnar um Icesavefrumvarpið. Þetta gerðist þrátt fyrir að útgreiðsla væri háð því að Alþingi samþykkti frumvarpið sem ekki varð fyrr en í lok mánaðarins og forsetinn synjaði síðan lögunum staðfestingar í kjölfarið.

Við álítum að öll skref sem leiða til þess að tryggja aðgang að erlendu lánsfé gætu orðið til þess að markmið aðlögunar‐ og fjármögnunaráætlunar íslenskra stjórnvalda náist og einkunnagjöfin yrði stöðugri, sem og óvænt samþykkt laganna í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef ekki tækist að ná málamiðlun sem tryggði áframhaldandi erlenda fjárhagsaðstoð og ef núverandi ríkisstjórn félli hugsanlega þar að auki, mundu þær erfiðu aðstæður til stefnumörkunar og framkvæmda sem nú hafa skapast versna enn frekar og hætta ykist á áframhaldandi efnahagslegri upplausn og frekari gengislækkun krónunnar. Skuldsetning einkageirans á Íslandi er að okkar mati ennþá mjög mikil og lánsþörf hins opinbera er veruleg. Ef erlent lausafé þornaði upp er það okkar skoðun að það mundi draga enn frekar úr tiltrú á efnahagslegum framtíðarhorfum Íslands, auka á áhættu í fjármálageiranum sem enn er viðkvæmur og gæti skapað frekari þörf á stuðningi ríkisins við bankakerfi landsins.

Athugunarlisti

Við búumst við að komast að niðurstöðu um lánshæfismatið fyrir lok apríl 2010 þegar frekari upplýsingar liggja fyrir um horfur á að hefja að nýju marghliða og tvíhliða flæði erlends fjármagns og vilja stjórnvalda til að grípa til úrræða til að endurvekja tiltrú fjárfesta. Ef í ljós kemur að mál verða áfram í pólitískum ógöngum eða ef við álítum að aðgangur hins opinbera að erlendu lánsfé skerðist ekki aðeins tímabundið, þá gætum við lækkað einkunnir okkar fyrir ríkissjóð Íslands um eitt eða tvö þrep. Pólitísk málamiðlun sem tryggir áframhaldandi aðgang að erlendu lánsfé eða sú óvænta niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar að Icesave‐lögin yrðu samþykkt gæti leitt til þess að núgildandi einkunn yrði staðfest," segir í lauslegri þýðingu Seðlabanka Íslands á áliti S&P.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert