Steingrímur Hermannsson látinn

Steingrímur Hermannsson áttræður árið 2008.
Steingrímur Hermannsson áttræður árið 2008. mbl.is/Frikki

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, lést í morgun á heimili sínu í Garðabæ á 82 aldursári. Steingrímur var forsætisráðherra á árunum 1983 til 1987 og síðan aftur frá 1988 til 1991. Hann gegndi einnig öðrum ráðherraembættum og var seðlabankastjóri frá 1994 til 1998.

Steingrímur fæddist í Reykjavík 22. júní 1928, sonur Hermanns Jónassonar, alþingismanns og ráðherra og eiginkonu hans, Vigdísar Oddnýjar Steingrímsdóttur.

Steingrímur lauk stúdentsprófi frá MR 1948 og prófi í rafmarksverkfræði frá tækniháskólanum í Chicago árið 1951. Þá lauk hann  M.Sc.-próf frá California Institute of Technology í Pasadena árið 1952.

Eftir nám starfaði Steingrímur sem verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1952—1953 og hjá Áburðarverksmiðjunni  1953—1954. Hann starfaði einnig sem  verkfræðingur við Southern California Edison Company í Los Angeles 1955—1956. Hann var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins 1957—1978. 

Steingrímur var kjörinn á Alþingi 1971 fyrir Framsóknarflokkinn og sat þar til ársins 1994, fyrst fyrir Vestfjarðakjördæmi en frá 1987 fyrir Reykjaneskjördæmi. Hann var dóms- og kirkjumála- og landbúnaðarráðherra frá 1978 til 1979 og sjávarútvegs- og samgönguráðherra frá 1980 til 1983 þegar hann var skipaður forsætisráðherra. Hann tók árið 1987 við embætti utanríkisráðherra en var árið eftir forsætisráðherra á ný til 1991. 

Steingrímur var formaður Framsóknarflokksins á árunum 1979 til 1994 og gegndi að auki fjölda trúnaðarstarfa og embætta. 

Steingrímur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sara Jane Donovan og þau eignuðust þrjú börn: Jón Bryan, Ellen Herdísi og S. Neil. Síðari kona Steingríms var Guðlaug Edda Guðmundsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn:  Hermann Ölvir,  Hlíf og Guðmund.

Fáir komist nær því að teljast allra

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir á heimasíðu flokksins að Steingríms verði sárt saknað.

„Hann naut mikillar hylli sem stjórnmálamaður ekki aðeins hjá Framsóknarmönnum heldur stórum hluta þjóðarinnar. Fáir stjórnmálamenn hafa komist nær því að teljast allra," segir Sigmundur Davíð.
 

Steingrímur Hermannsson ásamt Kristjáni Eldjárn, forseta Íslands, árið 1980.
Steingrímur Hermannsson ásamt Kristjáni Eldjárn, forseta Íslands, árið 1980.
Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem sat á árunum 1988 til 1991.
Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem sat á árunum 1988 til 1991.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert