Þingmenn rannsaki þátttöku í Íraksstríði

Steinunn Valdís Óskarsdóttir.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir. Ragnar Axelsson

Þingsályktunartillaga um að skipa rannsóknarnefnd þingmanna til að fara yfir aðdraganda að ákvörðun Íslands um þátttöku í Íraksstríðinu verður lögð fram í dag eða á morgun. Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ögmundur Jónasson standi að baki tillögunni ásamt fleiri þingmönnum. Steinunn Valdís segir slíka rannsókn hluta af þeirri tiltekt sem þurfi að fara fram í íslensku samfélagi.

Nefndinni verður samkvæmt tillögunni gert að fara yfir hvernig ákvörðunin var tekin, af hverjum, hvers vegna og með hvaða hætti. Hún á að fara yfir öll gögn sem til eru varðandi málið auk þess að kalla til sín einstaklinga til skýrslutöku. Flutningsmenn telja jafnframt að það sé mjög mikilvægt að skýrslutökur fari fram í heyranda hljóði, enn sá hátturinn er hafður á í Bretlandi.

„Allt saman mjög óljóst“

Hinn 17. mars 2003 lýstu Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, yfir stuðningi við Azoreyja-yfirlýsingu leiðtoga Bandaríkjanna, Bretlands og Spánar, þar sem Saddam Hussein voru settir úrslitakostir. Á ríkisstjórnarfundi daginn eftir var Íraksmálið á dagskrá og síðar sama dag kom fram að Ísland væri í hópi 30 ríkja sem styddu tafarlausa afvopnun Íraka.

Steinunn Valdís, sem er formaður allsherjarnefndar Alþingis, telur margt óljóst við þá atburðarrás sem leiddi að ákvörðuninni. „Það hefur alltaf verið málum blandið hverjum barst þessi beiðni, hvar fjallað var um hana, hvort hún hafi fengið efnislega umfjöllun og umræðu og hvort embættismenn hafi komið að og gefið álit sitt á því hvort samþykkja bæri beiðnina. Það er enn allt saman mjög óljóst.“

Í fullu samræmi við íslensk lög

Í janúar 2005 vann Eiríkur Tómasson lagaprófessor álitsgerð um málið. Í henni kemur m.a. fram, að það hafi verið í fullu samræmi við íslensk lög og stjórnskipun, að forsætisráðherra og utanríkisráðherra tækju umrædda ákvörðun í sameiningu. Ákvörðunin hafi ekki verið þess eðlis að samþykki Alþingis þyrfti að koma til, þar sem ekki var um að ræða ákvörðun sem fól í sér frekari kvaðir á íslensku landi og lofthelgi en leiddi af varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna – sem þá var í gildi.

Steinunn Valdís segir það álit ekki breyta forsendum rannsóknar og sjálfsagt að fara yfir málið frá a til ö. „Þetta var mikið deilumál í íslensku samfélagi á sínum tíma. Við sjáum hvað er að gerast í Bretlandi og Hollandi um þessar mundir, menn eru að rekja sig í gegnum þessi mál og færa upp á yfirborðið hvernig ákvarðanir voru teknar.“ Hún tekur fram að þetta sé hluti af þeirri tiltekt sem fara þurfi fram í íslensku samfélagi.

Fjölmörg mál bíða afgreiðslu Alþingis um þessar undir. Spurð hvort ekki séu önnur mikilvægari mál sem bíði segir Steinunn Valdís, að þetta sé eitt af þeim málum sem þurfi að klára. „Ég myndi telja að ýmsir teldu þetta mikilvægt núna auk þess sem eitt útilokar ekki annað. Það eru önnur mál í gangi og stöðvast ekki við rannsókn á þessu.“

Ögmundur með tengt mál á morgun

Óvíst er hvenær þingsályktunartillagan kemst á dagskrá Alþingis. Á dagskrá þingsins á morgun er hins vegar tengd þingályktunartillaga Ögmundar Jónassonar um birtingu skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

Tillaga Ögmundar gengur út á að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að sjá til þess að birt verði öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem fyrir liggja frá ársbyrjun 2002 til desember 2003 sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta og annarra þjóða í Írak árið 2003.

Frétt um álitsgerð Eiríks Tómassonar

Frétt um umræðu í utanríkismálanefnd um stuðning Íslands við Íraksstríðið

Frétt um umræðu á Alþingi 30. nóvember 2004 um stuðning Íslands við Íraksstríðið

Frétt um umræðu á Alþingi 11. febrúar 2005 um stuðning Íslands við Íraksstríðið

Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, þegar dauðadómurinn var kveðinn upp yfir …
Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, þegar dauðadómurinn var kveðinn upp yfir honum. AP
Mótmæli gegn stríðinu í Írak hafa verið tíð.
Mótmæli gegn stríðinu í Írak hafa verið tíð. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert