Endurnýjanleg orkuborg

Merki Framsóknarflokksins.
Merki Framsóknarflokksins.

Ungir framsóknarmenn í Reykjavík vilja markaðsetja Reykjavík á alþjóðavettvangi sem endurnýjanlega orkuborg, samkvæmt ályktun frá Alfreð, félagi ungra framsóknarmanna í Reykjavík.

„Borgin á að vera leiðandi á sviði endurnýjanlegrar orku og bjóða fyrirtækjum sem og borgarbúum upp á umhverfisvæna borg. Til þess að svo geti orðið þarf að skapa hagstæðar aðstæður fyrir annars vegar fyrirtæki sem tengjast endurnýjanlegri orku og hins vegar farartæki og iðnað, sem nýta m.a. innlenda og endurnýjanlega orku í starfsemi sinni.
 
Rétt er að nota skattkerfið til þess að auka notkun á endurnýjanlegri orku, t.d. með því að veita fyrirtækjum sem tengjast framleiðslu/nýtingu á endurnýjanlegri orku skattaívilnanir og veita útsvarsafslátt fyrir aðila sem nota eingöngu farartæki sem nota innlenda og endurnýjanlega orku eins og rafmagn, vetni, metan eða methanol.
 
Auk þess vilja ungir framsóknarmenn skylda olíufyrirtæki til þess að bjóða upp á bensín sem inniheldur íblöndunarefni. Þannig er hægt að minnka kolefnisnotkun og draga verulega úr bensínkostnaði.
 
Ennfremur vilja ungir framsóknarmenn í Reykjavík efla almenningssamgöngur og gera þær að ódýrum og þægilegum valkosti í samgöngumálum, með lækkun fargjalda og betra þjónustuneti. Einnig ber að skoða framsæknar lausnir eins og innleiðingu léttlesta á fjölförnum leiðum,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert