Fagna úrskurði umhverfisráðherra

Áform hafa verið um að virkja Þjórsá í byggð.
Áform hafa verið um að virkja Þjórsá í byggð. Ragnar Axelsson

Samtökin Sól á Suðurlandi segja að úrskurður umhverfisráðherra um skipulag við Þjórsá sé mikið fagnaðarefni fyrir hinn almenna íslenska borgara. „Málið snýst um réttindi almennings, að menn séu jafnir fyrir lögum, en geti ekki keypt sér niðurstöðu í skipulagsmálum,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

„Sól á Suðurlandi lýsir ánægju með að umhverfisráðherra skuli brjóta blað með því að boða ný vinnubrögð innan stjórnsýslunnar. Fólkið við Þjórsá sem ekki styður virkjanaframkvæmdir í byggð hefur í mörg ár liðið fyrir óréttmæta stjórnsýslu og vonlitla stöðu gagnvart valdhöfum og framkvæmdaaðilum.

Viðbrögð við úrskurðinum eru hefðbunðið spól í sama farinu. Viðbúið er að sveitarstjórnir undrist gagnrýni á eigin vinnubrögð, að Samorka fari gegn ráðherra og aðilar vinnumarkaðarins verji stórframkvæmdir umfram aðra atvinnusköpun.

Sól á Suðurlandi telur að hægt sé að ná umræðunni upp úr hjólförunum með því að tala við fleiri sem hagsmuna eiga að gæta, ferðaþjónustu, veiðifélög, bændur og fjölmarga aðra sem sjá önnur tækifæri við Þjórsá en að færa umhverfi hennar í kaf.

Niðurstaða ráðherra er sigur fyrir lýðræðið og náttúruna,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert