Rætt um stjórn fiskveiða á Alþingi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Árni Sæberg

Önnur umræða um frumvarp sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða stendur nú yfir á Alþingi en þar er gert ráð fyrir ýmsum breytingum, m.a. að ráðherra verði heimilt að ráðstafa allt að 2 þúsund tonnum af skötusel umfram aflmark á þessu og næsta fiskveiðiári.

Tekið er fram að við úthlutun veiðiheimilda í skötusel hafi ráðherra samráð við Hafrannsóknastofnunina, en bent er á að skötuselurinn sé ágengur og vaxandi fiskstofn á Íslandsmiðum og hefur hann hefur dreifst mjög hratt á síðustu árum.

Þá er í frumvarpinu m.a. lagt til að ráðherra verði  á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 heimilt að ráðstafa allt að 200 lestum af óslægðum botnfiski á hvoru ári.

Heimild verði til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15% með það markmiði að auka hagkvæma nýtingu fiskstofna. Gert er ráð fyrir að hafi ráðherra heimild til að hækka þetta hlutfall verði það til að stuðla að betri nýtingu tegundar

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ívilnunin hjá bátum sem nota landbeitta línu verði aukin úr 16% í 20% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks. Meiri hlutinn telur þessar breytingar jákvæðar og þess eðlis að skapa fleiri störf í landi.

Fram kom í máli Ólínu Þorvarðardóttur, formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem mælti fyrir áliti meirihluta nefndarinnar, að rætt hefði verið um það í nefndinni hvort rétt væri að fjalla fyrst um þessi mál í sáttanefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um framtíðarskipan í fiskveiðistjórn. „Í því samhengi vekur meirihlutinn athygli á að umdeildasta ákvæðið sem hér er til umræðu er til einungis til bráðabirgða. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjur af aflaheimildum renni í ríkissjóð og skuli þeim ráðstafað á þann veg að 40% renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs en 60% verði varið til byggðaáætlunar,“ sagði Ólína. 

„Menn hafa sagt að hér sé verið að stíga fyrstu skref til fyrningar. Ég vil vekja athygli á því að hér er ekki um fyrningu að ræða heldur viðbótarheimildir sem ekki eru teknar úr neinum potti. En hér er vissulega verið að reyna nýjar leiðir til úthlutunar, sem m.a. tryggi að hlut gjaldsins renni til beint til ríkissjóðs,“ sagði Ólína.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi það harðlega að ekki ætti að eyrnamerkja fjármunina sem auknar fiskveiðiheimildir muni skila í ríkiskassann sérstaklega í atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi á landsbyggðinni.

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði frumvarpið sem Ólína mælti fyrir vera „algjör línuflækja.“ Gagnrýndi hann einnig reynsluleysi Ólínu sem birtist m.a. í því að hún hefði í haust haldið því fram að skötuselur væri ný fisktegund sem ekki hefði verið veiddur um lengri tíma. Sagði hann þetta bull þar sem skötuselur hefði verið veiddur við Íslandsstrendur áratugum saman. „Hvaða bull er þetta?“

„Mér er skapi næst að svara ekki Árna Johnsen eins ókurteis og hann er og fráleitt að persónugera heilt frumvarp sem meirihluti nefndarinnar mælir með í þeirri einni persónu sem mælir fyrir frumvarpinu,“ sagði Ólína og tók fram að hún hefði hreinlega ekki skilið sumar þeirra athugasemda sem Árni hefði gert. Benti hún í framhaldinu á það sem hún sagði rangfærslur í gagnrýni Árna. Sagðist hún m.a. vera tilbúin til þess að fara yfir tölulegar upplýsingar um mælingar á skötusel í rólegheitunum með þingmanninum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert