Sakaði þingmenn um mannaveiðar

Illugi Gunnarsson og aðrir þingmenn á Alþingi.
Illugi Gunnarsson og aðrir þingmenn á Alþingi. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að lítið lát væri á mannorðsveiðum í Icesave-málinu og ótrúlegustu menn tækju þátt í þeim.

„Það er ótrúlega lágkúrulegt að reyna að persónugera málið við þá, sem gerðu ekkert annað en fallast á óskir um að reyna að taka þetta erfiða verkefni að sér fyrir Ísland en ekki þá sem bjuggu vandamálið til, báru ábyrgð á því að það varð til og fékk að ganga jafn lengi og raun ber vitni. Það er mál að þessu linni. Það skal verða öllum til skammar, sem reyna að vera á ómerkilegum mannaveiðum í þessu máli, til að komast burtu frá eigin ábyrgð," sagði Steingrímur.

Ummæli ráðherra féllu eftir að þingmenn höfðu rætt um störf þingsins og fjallað talsvert um Icesave-málið. Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði meðal annars að í Icesave-umræðunni hefði mikið verið kallað eftir því að þingmenn hefðu öll gögn í málinu í höndum. Ríkisstjórnin hefði ítrekað fullyrt að svo væri.

Fjármálaráðherra hefði þannig sagt í ræðu í desemberlok, að ekkert væri fjarri sanni en að stjórnvöld hefðu verið með pukur í málinu.

Nú hefði Steingrímur sagði í viðtölum í gær að hann hefði verið bundinn trúnaði um ýmsar upplýsingar sem skiptu máli varðandi Icesave-málið. Honum hafi með öðrum orðum verið kunnugt um upplýsingar sem hann hafi ekki deilt með Alþingi.

Illugi sagði, að ráðherra hefði þá verið sú leið opin  að fara á fund utanríkismálanefndar og gera henni grein fyrir þessum upplýsingum þar sem nefndin væri bundin trúnaði.

Steingrímur svaraði þessu síðar í umræðunni og sagði  að sumpart hefðu nýjar upplýsingar verið að koma fram síðustu daga, m.a. vegna nefndarstarfa hollenska þingsins. Þá hefðu gögn verið bundin trúnaði í möppum þingmanna. Loks væru ýmis gögn, sem stjórnsýslan hefði ekki aðgang að en rannsóknarnefnd Alþingis hefði heimild til að sækja inn í bankakerfið og kæmu væntanlega fram í skýrslu nefndarinnar.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði m.a. viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins í gær, að umtalsefni. Sagði Kristján, að Jóhanna hefði þar lýst sér sem stjörfum áhorfanda og sagt, að eftirá að hyggja hefði verið betra að fá reynslumeiri samningamenn í íslensku Icesave-samninganefndina.

„Þetta eru að mörgu leyti merkileg ummæli og ekki mikill drengskapur í því, að koma þannig fram eftir margra mánaða vörn stjórnarflokkanna vegna samningana sem Svavar Gestsson og samninganefnd hans komu með heim," sagði Kristján. Hann bætti við að iðulega hefðu komið fram þau sjónarmið að leita hefði átt aðstoðar sérfræðinga með meiri þekkingu og reynslu til að leiða vinnu Íslands við samningsgerðina. 

Sagðist Kristján telja augljóst að Samfylkingin sé komin á hraðan flótta undan samningunum á meðan Vinstri grænir leggi allt sitt púður í að verja vinnu fulltrúanna í samningagerðinni.

Spurði Kristján síðan Árna Þór Sigurðsson, þingmann VG, hvort hann væri sammála því mati að fá hefði átt reynslumeiri samningamann í fyrirsvar fyrir Ísland í þessari deilu.

Árni Þór sagðist ekki hafa skilið ummæli Jóhönnu þannig, að betra hefði verið að fá reyndan samningamann í stað nefndarmanna heldur til liðs við nefndina, eftir á að hyggja. Það hefði hugsanlega getað haft áhrif á trúverðugleika niðurstöðunnar en ekki efnislega á niðurstöðuna sjálfa.

Árni Þór sagði að upphaf málsins og ömurleiki þess væri hinn stóri vandi sem glímt væri við en ekki hvernig hafi verið unnið úr því.  Margir sérfræðingar hefðu komið að vinnu með samninganefndinni, bæði innlendir og erlendir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert