Freista þess að ná frama

Fjölmörg fyrirtæki kynntu starfskröftum framtíðarinnar starfsemi sína á Framadögum í dag.

Gangarnir í Háskólabíói iðuðu af lífi þar sem stúdentar úr öllum fögum gengu á milli fyrirtækjabása og nutu þar veitinga af gómsætara taginu um leið og þeir kynntu sjálfa sig og fræddust um starfsemi fyrirtækjanna.

Framadagar eru haldnir á vegum AIESEC sem eru alþjóðleg stúdentasamtök sem starfa í 107 löndum.

Þótt nokkuð hafi verið um það á góðærisárunum að fólk gengi út af Framadögum með starfssamning upp á vasann er lítið um slíkt núna. Hins vegar segir Árni Jón Pálsson, framkvæmdastjóri Framadaga þetta gott tækifæri fyrir stúdenta til að ræða við starfsmannastjóra fyrirtækjanna og kynna sig þannig.

Og það var ekki annað að heyra á starfskröftum framtíðarinnar en að þeir væru hæstánægðir með framtakið.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert