Icesave-samningar í raun gerðir í desember 2008

Indriði H. Þorláksson.
Indriði H. Þorláksson.

Indriði H. Þorláksson, sem sat í Icesave-samninganefnd Íslands á síðasta ári, segir í grein í Fréttablaðinu í dag, að í desember árið 2008 hafi legið fyrir samkomulagsdrög milli Íslands og Bretlands og Hollands sem í voru nánast öll efnisatriði núverandi Icesave-samninga, utan að þar var gert ráð fyrir hærri vöxtum, stífari afborgunum og styttri afborganalausum tíma.

Indriði er með grein sinni að svara grein Kristrúnar Heimisdóttur, sem var aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, á þessum tíma.

Indriði segir, að framvinda samninganna eftir svonefnda Brusselyfirlýsingu í nóvember 2008 hafi verið undir forustu utanríkisráðuneytisins.

Hann segir að Hollendingar og Bretar hafi sent Íslendingum drög að samningum dagsett 4. desember 2008. Þetta hafi verið einfaldir einkaréttarsamningar. Samningsdrögunum hafi verið svarað af utanríkisráðuneytinu með athugasemdum 12. desember 2008 þar sem ekki hafi verið gerð minnsta athugasemd við samningsformið.

Til baka komu ný samningsdrög dagsett 19. desember þar sem brugðist var við athugasemdum Íslands. Segir Indriði að í þeim hafi verið nánast öll efnisatriði núverandi samnings en bara hærri vextir, stífari afborganir og styttri afborgunartími.

„Einkaréttarlegur lánasamningur er því ekki „ný nálgun Svavarsnefndarinnar" heldur arfur frá Kristrúnu og félögum frá haustinu 2008. Þannig skildi hún við málið án þess að örlað hefði á marghliða ferli þegar viðræður lognuðust út af hjá óstarfhæfri ríkisstjórn í janúar 2009," segir Indriði í greininni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert