Hlutverk hæstaréttar að breyta dómum

Héraðdómur Reykjavíkur.
Héraðdómur Reykjavíkur. Þorkell Þorkelsson

„Það er afar óheppilegt að maður fái tvo misvísandi dóma úr sama húsinu og í sjálfu sér má kannski líta á það sem svo að ekki sé eðlilegt að héraðsdómari sé að breyta niðurstöðu annars héraðsdómara,“ segir Sigurmar K. Albertsson hæstaréttalögmaður og verjandi Lýsingar í tveimur dómsmálum um myntkörfulánin sem fallið hafa á sitt hvorn veginn á undanförnum mánuðum. En Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í gær að óheimilt væri að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.
Segir Sigurmar það sína skoðun að það sé hlutverk hæstaréttar, ekki annars héraðsdómara, að breyta dómi ef breytinga sé þörf. 


Sjálfur leiddi Sigurmar líkur að því að fá ekki tvo dóma úr sama húsinu á sitthvorn veginn. En auðvitað er ekkert öruggt í þessum heimi, segir hann. 
Málsástæður hefðu að sínu mati átt að duga til að fallist yrði á hans kröfur.

Ekki sé fjallað um lán í erlendir mynt í lögunum og fullyrðingin um að í athugasemdum með frumvarpi 1. 38/2001 sé lagt fortakslaust bann við verðtryggingu miðaða við gengi standist ekki. Hliðstæðir samningar hafi verið gerðir í þúsundum, ef ekki tugþúsundum, og eftirlitsaðilar s.s. Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hafi vitað af þessum samningum og ekki gert athugasemdir.  Lánið hafi aukinheldur verið veitt í erlendum gjaldmiðlum og því eigi lánveitandinn rétt á að fá greitt til baka í sömu mynt.


Reynt verður að áfrýja málinu og telur hann eðlilegt að málið fái flýtimeðferð í Hæstarétti, ef til þess komi, þó slíkt sé náttúrlega alltaf ákvörðun dómstólsins.
Vissulega sé einhvern blæbrigðamunur á málunum tveimur, en enginn yfirþyrmandi eðlismunur. Úrskurður hæstaréttar ætti því að hafa fordæmisgildi. „Ég mun alla vegna reyna að haga því þannig að það fáist svar við spurningunni hvort gengislánin haldi eða ekki. Maður reynir þá að sníða allan annan ágreining í burtu.

Það gefur augaleið að óvissa sem þessi er óþægileg fyrir lánþega sem lánveitendur. Þetta snýst ekki bara um bíla, heldur aðrar og mun stærri lánveitingar. Þetta eru einhverjar þúsundir, ef ekki tugþúsundir samninga sem þarna eru undir.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert