Neil Ófeigur Bardal látinn

Neil Ófeigur Bardal boðaði til veislu í nóvember sem leið …
Neil Ófeigur Bardal boðaði til veislu í nóvember sem leið þegar ljóst var að hann lá fyrir dauðanum. mbl.is

Neil Ófeigur Bardal, útfararstjóri í Winnipeg í Kanada og fyrrverandi ræðismaður Íslands, andaðist í nótt, tæplega 70 ára að aldri.

Neil Ófeigur Bardal fæddist í Winnipeg 16. febrúar 1940. Hann var ættaður frá Svartárkoti í Bárðardal og hús hans í Húsavík, rétt sunnan við Gimli í Kanada, heitir Svartárkot. Foreldrar hans voru Njáll Ófeigur Bardal og Sigrid Johnson. Afi hans og amma í föðurætt voru Arinbjörn Sigurgeirsson Bárdal og Margrét Ólafsson. Þau fluttu til Kanada um 1895 en móðurforeldrar hans, Helgi Jónsson frá Borgarnesi og Ásta Jóhannesdóttir, fluttu út um 1900.

Neil Ófeigur Bardal rak ásamt fjölskyldu sinni útfararstofu í Winnipeg um árabil, Neil Bardal Inc., og fetaði þannig í fótspor föður síns og afa sem ráku útfararstofuna Bardal Funeral Home. Synir hans tóku við rekstrinum í vetur.

Neil var mjög virkur í íslensk-kandíska samfélaginu undanfarna áratugi, lét til sín taka á öllum sviðum. Hann var m.a. sæmdur æðstu viðurkenningu Manitobafylkis, æðstu viðurkenningu Þjóðræknisfélagsins í Norður-Ameríku og riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu auk þess sem hann var heiðursfélagi Þjóðæknisfélags Íslendinga. Hann lét af störfum sem kjörræðismaður Íslands á Gimli 2003 eftir að hafa hafið störf fyrir utanríkisþjónustuna sem aðalræðismaður í Manitoba 1994.

Í liðinni viku kom út spennusagan Passion eftir Neil og Fay Cassidy. Útgáfu bókarinnar var flýtt vegna veikinda Neils en hann náði að sjá hana áður en yfir lauk.

Eftirlifandi eiginkona hans er Annette Bardal. Þau eignuðust tvo syni,
Eirík og Jón, og sex barnabörn.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert