Ármann Snævarr látinn

Ármann Snævarr.
Ármann Snævarr. mbl.is / Golli

Ármann Snævarr, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands og hæstaréttardómari, lést á Landspítalanum í morgun, á nítugasta og fyrsta aldursári.

Gunnsteinn Ármann Snævarr fæddist í Neskaupstað 18. september 1919. Foreldrar hans voru Stefanía Erlendsdóttir húsmóðir og Valdemar Valvesson Snævarr skólastjóri. 

Ármann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1944 og stundaði framhaldsnám í Uppsölum, Kaupmannahöfn og Osló. Síðar stundaði hann sérnám og rannsóknir við Harvard Law School.

Hann var bæjarfógeti á Akranesi á árinu 1944 og prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands 1948 til 1972. Hann var rektor Háskólans 1960 til 1969.

Ármann var hæstaréttardómari 1972 til 1984.

Ármann vann að samningu fjölda laga og sat í ýmsum stjórnum og nefndum á vegum Háskóla Íslands og annarra og vann með vísinda- og menningarfélögum.

Hann skrifaði mikið um lögfræði. Síðast sendi hann frá sér mikið fræðirit um hjúskapar- og sambúðarrétt, vorið 2008 þegar hann var á 89. aldursári.

Ármann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands og erlenda háskóla og fékk ýmsar fleiri viðurkenningar fyrir störf sín, bæði erlendis og hér heima.

Eftirlifandi eiginkona Ármanns er Valborg Sigurðardóttir, uppeldisfræðingur og fyrrverandi skólastjóri.

Börn þeirra eru Sigríður Ásdís sendiherra, Stefán Valdemar, prófessor í Noregi, Sigurður Ármann borgarhagfræðingur, Valborg Þóra hæstaréttarlögmaður og Árni Þorvaldur upplýsingafulltrúi í Brussel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert