Gerðu skjól úr sleðanum

Fólkið sem bjargað var af Langjökli í nótt hafði stöðvað vélsleðann þegar það varð viðskila við hópinn, velti honum á hliðina og notaði vélarhlífina til að búa til skjól og beið eftir hjálp. Það voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar, við ótrúlega góða heilsu.

Afar erfiðar aðstæður voru til leitar á Langjökli í gærkvöldi. Aðeins um eins metra skyggni, 18-20 metra vindur á sekúndu og tíu stiga frost. Lárus Guðmundsson, formaður Hjálparsveitar skáta í Hveragerði, sem ók á björgunarsveitarbíl frá skálanum í Skálpanesi og að jöklinum segir að þeir hafi þurft að láta mann ganga á undan bílnum og afar erfitt að komast áfram vegna blindu.

Fólkið er ferðafólk frá Skotlandi og var í snjósleðaferð á jöklinum á vegum ferðaskrifstofu, 48 ára gömul kona og 11 ára gamall sonur hennar. 

Eftir að þau urðu viðskila við hópinn um klukkan hálf sex í gær hófst leit. Var allsherjarútkalla þar sem um 300 björgunarsveitarmenn af höfuðborgarsvæðinu, Norður-, Vestur- og Suðurlandi fóru til leitar í um 90 hópum. Notaðir voru allir tiltækir snjóbílar og vélsleðar auk annarra farartækja.

Breiðleit á snjósleðum

Sett var upp grunnleitarskipulag, þar sem leitað var út frá þeim stað þar sem fólkið varð viðskila við hópinn, samkvæmt upplýsingum Steinars Rafns Garðarssonar í svæðisstjórn björgunarsveita í Árnessýslu.

Síðan var ekið út frá því og var stutt á milli sleðanna vegna þess hversu blint var og aðstæður erfiðar.

Fólkið fannst um 40-50 metrum fá þeirri línu sem ferðahópurinn var á, um klukkan hálf tvö í nótt.

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi var fólkið með fulla meðvitund og heilsa þess ótrúlega góð, miðað við aðstæður. Konan var að vísu orðin köld á höndum og fótum.

Þau höfðu búið sér til skjól með því að velta snjósleðanum á hliðina. Konan lagðist ofan á dreginn að hluta og notaði vélarhlífina til að skýla þeim. Lögreglan telur að rétt viðbrögð konunnar hafi orðið þeim til lífs.

Konan á sjúkrahús

Hlúð var að fólkinu í snjóbíl sem fylgdi vélsleðunum eftir. Þaðan var þeim ekið niður að Skálpanesskála og hlúð að þeim í björgunarsveitarbíl. Sjúkrabíll hafði verið kallaður út en ákveðið var að aka þeim á sjúkrahús í Reykjavík á björgunarsveitarbílnum.

Þangað var komið um klukkan sex í morgun. Þorvaldur Guðmundsson, formaður Svæðisstjórnar björgunarsveita í Árnessýslu, segir að konan hafi verið lögð inn á Landspítalann. Það hafi verið gert til öryggis. Drengurinn hafi farið með föður sínum og bróður á hótel.

Heppni, gott skipulag og áræðni

„Ég er mjög ánægður. Það var gríðarlega vel unnið starf þarna. Heppni í bland við gott skipulag og áræðni þeirra sem fóru upp á jökul ræður því hvernig til tókst. Það er ekkert sjálfsagt að fara af stað í svona veðri, þar sem menn sjá ekki handa sinna skil. Eina leiðin til að finna fólkið var að keyra beint á það. Við reyndum að setja okkur í spor þess og unnum í samræmi við það,“ segir Þorvaldur og bætir því við að fólkið sem leitað var að hafi brugðist rétt við með því að stöðva sleða sinn og halda ekki áfram.

Björgunarsveitarmenn eru allir á heimleið. Þeir síðustu voru komnir niður á Kjalveg um klukkan átta í morgun.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert