Lagafrumvarp um frestun nauðungarsölu

Eygló Harðardóttir
Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokks hyggst leggja fram frumvarp til laga á Alþingi um frestun nauðungarsölu og flýtimeðferð einkamála vegna erlendra lána.

„Gífurlegir hagsmunir eru af því að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort gengistryggðir lána- og kaupleigusamningar eru löglegir eða ekki,“ segir m.a. í tilkynningu sem Eygló hefur sent frá sér.

Hún bendir á að yfir  40.000 einstaklingar séu með fjármögnun bifreiðar í erlendri mynt að upphæð yfir 115 milljarðar króna. Þá hafi félagsmálaráðherra upplýst að gengisbundin skuldabréf til heimila voru um 315 milljarðar króna í lok september 2008 og voru 107 milljarðar skilgreindir sem erlend íbúðalán. Þá séu ónefndir sambærilegir lánasamningar fyrirtækja.

„Hef ég boðið þingmönnum allra flokka að gerast meðflutningsmenn að málinu svo hægt verið að aflétta sem fyrst réttaróvissu, takmarka hugsanlega skaðabótaábyrgð málsaðila og tryggja hraða og réttláta meðferð þessara mála í dómskerfinu,“ skrifar Eygló.

Lagagreinarnar eru svohljóðandi:
„1.gr. Við lög um meðferð einkamála nr. 91/1991, með síðari breytingum bætist við nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:
Nú hyggst aðili höfða mál vegna lögmæti lána eða kaupleigusamninga sem eru tilgreindir í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, eða svokölluð gengistrygging.  Getur hann þá óskað eftir því að málið sæti meðferð eftir ákvæðum kafla XIX um flýtimeðferð einkamála fyrir héraðsdómi og Hæstarétti Íslands. Gildir ákvæðið til 31. desember 2010.


2. gr. Við lög um nauðungarsölu nr. 90/1991, með síðari breytingum bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að fresta fram yfir 31. desember 2010 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu samkvæmt 6.gr. á grundvelli lána eða kaupleigusamninga sem eru tilgreindir í íslenskum krónum en miðast við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, eða svokölluð gengistrygging.  Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar eignar til fullnustu kröfu skv. 6.gr. við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður við gildistöku þessara laga fresta þeim aðgerðum fram yfir 31. desember 2010.

3.gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert