„Við sáum þarna þúst“

Guðmundur Arnar Ástvaldsson og Þór Kjartansson ganga frá eftir leitina …
Guðmundur Arnar Ástvaldsson og Þór Kjartansson ganga frá eftir leitina í húsi Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. mbl.is/Rax

„Maður er þakklátur, að finna fólkið, svo það þyrfti ekki að hafast þarna við um nóttina,“ segir Guðmundur Arnar Ástvaldsson, félagi í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Hann og þrír félagar hans úr beltaflokki sveitarinnar fundu konu og ellefu ára son hennar á Langjökli í nótt.

Guðmundur Arnar og félagar hans voru á fjórum vélsleðum við leit á Langjökli. Hann segir þá hafa ákveðið að taka hring um svæðið sem síðast var vitað um fólkið á. 

Veðrið var snælduvitlaust, eins og hann tekur til orða, gekk á með éljum og skyggni ekkert á köflum. „Í svona veðri er ekki hægt að tala um hefðbundna breiðleit, heldur þarf maður fyrst og fremst að gæta sín á því hvert maður er að keyra. Eina leiðin til að finna fólk í svona veðri er að keyra beint á það,“ segir Guðmundur Arnar.

„Við reyndum að halda beinni línu og ákveðinni stefnu, eins og hægt var,“ heldur hann áfram að lýsa leitinni. Tveir til þrír metrar voru á milli sleðanna, minna þegar dimmast var en þegar skárra var reyndu þeir að dreifa meira úr sér. Athyglin beindist að því að missa ekki sjónar af næsta sleða og fylgjast með leiðsögutækinu.

Sáum strax hreyfingu

„Við vorum heppnir. Tveir sleðarnir í miðjunni ramba beint á týnda sleðann og hinir fóru rétt framhjá,“ segir Guðmundur Arnar en svo vildi til að hann ók öðrum sleðanum sem stefndi á fólkið.

„Við sáum þarna þúst, en trúðum þessu varla, og þurfum að hemla til að lenda ekki á henni. Við stukkum af sleðunum og sáum strax hreyfingu,“ Guðmundur Arnar. 

Björgunarsveitarmennirnir fóru strax að hlú að konunni og drengnum og koma á fjarskiptasambandi við snjóbíl frá björgunarsveitinni Ársæli sem þeir vissu að var við leit á svipuðum slóðum. Fólkið var sett inn í snjóbílnum og ekið niður í skálann.

„Hún var auðvitað í uppnámi en afskaplega þakklát að við skyldum finna hana,“ segir Guðmundur um viðbrögð konunnar sem er frá Skotlandi.

Var ekki vongóður

Það er mikilvæg stund hjá björgunarsveitarmönnum þegar þeim auðnast að finna fólk á lífi við erfiðar aðstæður. 

„Ég hugsaði mikið um það þegar við vorum að fara þarna upp á jökul hvort fólkið myndi hafa það af yfir nóttina. Maður var ekkert sérstaklega vongóður um að finna það fljótt. Það var mjög tvísýnt orðið með veður og verið að ræða um að fresta leit til morgun, þegar spáð var skárra veðri en veðrið hélt áfram að versna. Það reyndist síðan erfitt að komast með sleðana niður í Skálpanesskála.

Maður gerði það sem maður gat og er bara þakklátur fyrir það að fólkið þyrfti ekki að hafast við þarna um nóttina,“ segir Guðmundur Arnar.

Fólkið fannst rétt inni á Langjökli, við Skálpanesskála.
Fólkið fannst rétt inni á Langjökli, við Skálpanesskála.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert