Gagnrýndi vinnubrögð bankanna

Skúli Helgason.
Skúli Helgason. mbl.is/Ómar

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi á Alþingi í dag þau vinnubrögð, sem bankarnir viðhafa við sölu á eignum, sem þeir hafa leyst til sín vegna hrunsins. Fleiri þingmenn tóku undir þessa skoðun og sagði Lilja Mósesdóttir að marka yrði pólitíska stefnu um skuldaaðlögun fyrirtækja.

„Eitt alvarlegasta dæmið sem nefnt hefur verið tengist meðferð Arion banka á fyrirtækinu Samskipum þar sem fyrri eigandi, sem mun hafa réttarstöðu grunaðs í umfangsmiklu fjársvikameðfer, mun eiga að fá fyrirtækið á silfurfati að lokinni skuldameðferð," sagði Skúli.

Hann sagði að viðskiptanefnd Alþingis hefði haft til umfjöllunar samræmdar verklagsreglur bankanna um endurskipulagningu fyrirtækja og ljóst væri af þeim drögum, að bankarnir virtust fyrst og fremst leggja til grundvallar hámörkun arðsemi til skemmri tíma en gæti þess ekki nægilega vel að læra af þeirri bitru reynslu sem steypti fjármálakerfinu í glötun og lagði þungar byrðar á herðar almennings. „Mjög skortir á að freistað sé að auka viðskiptasiðferði eða traust almennings á þessu ferli," sagði Skúli.

Hann sagði nauðsynlegt að kanna til hlýtar hvernig setja megi skorður við því að eigendur stórfyrirtækja, sem hefðu keyrt þau í þrot og ekki greitt af skuldum sínum, geti fengið sömu fyrirtæki í hendur að lokinni skuldameðferð banka. Þá verði tryggt að öll fyrirtæki af tiltekinni stærð fari í almennt opið söluferli en fyrrverandi eigendur og stjórnendur njóti ekki forréttinda. Loks hafi almenningur og fjölmiðlar beinan aðgang að upplýsingum um skuldameðferðina þegar umfang afskrifta fer yfir tiltekið hlutfall.  Loks verði að vega og meta þau lagalegu og siðferðilegu sjónarmið sem tengjast einstaklingum með réttarstöðu grunaðra.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna,  sagði að pólitíska stefnumótun vantaði varðandi sértæka skuldaaðlögun fyrirtækja og mæla þar m.a. fyrir um að fyrri eigendum fyrirtækja, sem komist hafa í þrot, fái ekki forkaupsrétt eins og nú stefni í varðandi rekstrarfélagið Haga.

Lilja sagði, að bankarnir hafi tjáð viðskiptanefnd þingsins, að þeir hafi aðeins fengið tilmæli frá ríkisstjórninni um að hámarka virði eigna. Það þýði á mannamáli, að bankarnir muni taka hæstu tilboðunum í eignir fyrirtækja eins og Haga.

„Mér finnst reyndar undarlegt að hluthafar í gjaldþrota eignarhaldsfélagi eins og 1998, skuli geta lagt fram hátt tilboð í Haga," sagði Lilja „en það er mál dómskerfisins að skoða."

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að notast yrði við annarskonar viðmið í þessum efnum en notuð hefðu verið til þessa. Þótt það þýddi að ekki yrði um að ræða peningalegt hámark endurgreiðslu frá skuldunum í öllum tilfellum „þá verður að hafa það," sagði hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert