Fréttaskýring: ESB-viðræðunum ýtt úr vör í apríl?

Talið er víst að José Manuel Barroso og félagar í …
Talið er víst að José Manuel Barroso og félagar í framkvæmdastjórn ESB muni 24. febrúar mæla með aðildarviðræðum við Ísland. reuters

Fátt ætti að koma í veg fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykki á fundi sínum 24. febrúar að leggja til við aðildarríki sambandsins að hafnar verði formlegar viðræður um aðildarumsókn Íslands að ESB.

Skv. heimildum Reuters-fréttastofunnar í Brussel í fyrradag mun framkvæmdastjórnin senda frá sér álit á umsókninni í næstu viku. Þetta þýðir í raun að embættismenn ESB eru búnir að fara yfir öll svör Íslands við ítarlegum spurningalista framkvæmdastjórnarinnar. Í álitinu verður fjallað um stöðu mála á Íslandi, hversu vel það er í stakk búið til að gerast aðildarríki og hvort það fullnægi skilyrðum aðildar. Framkvæmdastjórnin hefur ekki það hlutverk að ákveða að hefja viðræður heldur er það í valdi aðildarríkjanna. Álitið verður þvínæst tekið fyrir á fundum í svokallaðri stækkunarnefnd ráðsins, þar sem fulltrúar aðildarríkjanna eiga sæti.

„Síðan væntum við þess að það verði tekið fyrir á fundi leiðtoganna 25. og 26. mars næstkomandi ef allt gengur eftir,“ segir Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands og formaður íslensku samninganefndarinnar.

Efnislegar viðræður í haust

Samþykki leiðtogafundurinn að hefja formlegar aðildarviðræður við Ísland í lok mars er reiknað með að innan nokkurra vikna muni utanríkisráðherra halda á fund með starfsbróður sínum, utanríkisráðherra Spánar, sem gegnir um þessar mundir formennsku í ráðherraráðinu. Þá verður viðræðunum formlega ýtt úr vör og er talið víst að gangi þetta allt eftir verði aðildarviðræðurnar komnar á fulla ferð í vor og fram eftir sumri. „Þá förum við í svokallaða rýnivinnu þar sem okkar löggjöf og löggjöf ESB eru bornar saman, skilgreint hvað ber á milli o.s.frv. og sú vinna mun taka einhverja mánuði,“ segir Stefán Haukur. Það er því ekki fyrr en fer að líða vel á haustið sem efnislegar viðræður hefjast.

Vinna samninganefndar Íslands og tíu samningahópa sem fjalla um einstaka málaflokka fyrir aðildarviðræðurnar er komin vel af stað, að sögn hans. Samningahóparnir hafa hver um sig haldið einn til þrjá fundi. Aðalsamninganefndin hefur fundað þrisvar sinnum og kemur næst saman 25. febrúar, daginn eftir fund framkvæmdastjórnar ESB. „Við erum núna fyrst og fremst að undirbúa okkur og leggja vinnuna sem framundan er niður fyrir okkur auk þess sem aðalsamninganefndin hefur fengið upplýsingar frá formönnum undirhópanna.“

Vinna við það sem öllu skiptir á þessu ferðalagi, þ.e. við mótun samningsmarkmiða, er aðeins að litlu leyti hafin. Samninganefndin hefur álit meirihluta utanríkismálanefndar sem vegvísi þegar farið verður að útfæra samningsmarkmiðin. Mun væntanlega ekki reyna á þessi stóru mál á borð við sjávarútvegs-, auðlinda- og landbúnaðarmálin í viðræðunum við ESB fyrr en í haust.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert