Boranir rýra ekki framtíðargildi Gjástykkis

Frá borunum í Gjástykki.
Frá borunum í Gjástykki.

Skipulagsstofnun telur, að rannsóknaboranir í Gjástykki í Þingeyjarsveit muni tímabundið rýra verndargildi svæðisins en ekki framtíðargildi þess. Segist stofnunin telja, að allar forsendur eigi að vera til þess að hægt verði að afmá ummerki fyrirhugaðra rannsóknaborana.

Að áliti Skipulagsstofnunar er jarðfræðilega sérstæðni Gjástykkissvæðisins á landsvísu og heimsvísu óumdeilanleg og verndar- og fræðslugildi þess hátt. Fyrirhugaðar framkvæmdir við rannsóknaboranir komi til með að hafa nokkuð neikvæð og varanleg áhrif á hraun frá Kröflueldum á afmörkuðu svæði.

Þá segir stofnunin, að á framkvæmdatíma verði nokkuð neikvæð áhrif á svæðið sem hluta af svæði sem skilgreina megi sem víðerni. Þá verði sjónræn áhrif fyrirhugaðra framkvæmda nokkuð neikvæð fyrir þá ferðamenn sem sækja inn á svæðið til útivistar, auk þess sem hávaði mun berast frá holum í blæstri.

Að öðru leyti sé ljóst að framkvæmdasvæðið sé ekki umfangsmikið og ásýndarbreytingar vegna borteigs nái einkum til svæðis í næsta nágrenni hans. Segist stofnunin því leggja áherslu á að niðurstaða stofnunarinnar um áhrif á verndargildi og jarðmyndanir, sjónræn áhrif og áhrif á útivist og ferðaþjónustu byggi á því að vel takist til með að fjarlægja ummerki um borteiginn.

„Skipulagsstofnun vill leggja áherslu á að í þessu máli er verið að meta umhverfisáhrif af rannsóknaholum á einum skilgreindum borteig á Gjástykkissvæðinu en ekki af hugsanlegri orkunýtingu á svæðinu með tilheyrandi mannvirkjum. Ljóst er að neikvæð áhrif virkjunar á svæðinu yrðu allt annars eðlis og mun neikvæðari á marga umhverfisþætti en fyrirhugaðra framkvæmda vegna rannsóknaborana. Skipulagsstofnun tekur að öðru leyti ekki afstöðu til áhrifa af slíkum framkvæmdum enda munu þær fara í ferli mats á umhverfisáhrifum ef til þeirra kemur," segir í tilkynningu frá stofnuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert