Vilja finna uppbyggilega lausn

Breskir embættismenn segjast vilja finna uppbyggilega lausn á Icesave-deilunni við Íslendinga en á sama tíma tryggja að breskir skattgreiðendur fái til baka það fé, sem varið var til að greiða breskum Icesave-reikningseigendum Landsbankans bætur þegar bankinn féll.

Fram kom í dag, að Breta og Hollendingar ætli að leggja fram nýja tillögu til lausnar deilunni. Reutersfréttastofan hefur eftir heimildarmanni í breska fjármálaráðuneytinu, að tillagan verði send íslenskum stjórnvöldum fljótlega og snúist um að breytilegir vextir verði á lánum, sem Bretar og Hollendingar veita Íslendingum í stað fastra 5,5% vaxta.  

Reuters hefur eftir heimildarmanni í Amsterdam, að Hollendingar og Bretar ætli að leggja fram nýja tillögu til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um Icesave-samninginn, sem gerður var í október. Áfram sé þó gert ráð fyrir því að Íslendingar endurgreiði Bretum og Hollendingum alla lánsupphæðina.

Hollenskir fjölmiðlar segja nú síðdegis, að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafi alltaf sagt að hann vilji tryggja að hollenskir skattgreiðendur fái lánið endurgreitt með sanngjörnum vöxtum. Hins vegar sé það ekki ætlun Hollendinga að valda Íslendingum óyfirstíganlegum fjárhagslegum vandamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert