Uppboðum enn frestað um þrjá mánuði

Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, hefur mælt fyrir frumvarp til laga um breyting á lögum um nauðungarsölu.

Í frumvarpi er lagt til að gerðarþolar geti í þeim tilvikum þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði óskað eftir því við sýslumann að töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði verði frestað í allt að þrjá mánuði. Tekur heimild þessi gildi þegar við gildistöku laganna og er miðað við að umrædda beiðni megi leggja fram allt til 31. ágúst 2010.

Í máli Rögnu kom fram að frestur á nauðungarsölu að beiðni gerðarþola hefur verið talinn nauðsynlegur svo að skuldurum væri gefinn kostur á að nýta þennan tímafrest til að leita tiltækra úrræða til að ná tökum á greiðsluvanda sínum en á síðustu missirum hafa verið sett í lög ýmis ákvæði til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum. Þar sem hin nýju úrræði hafa verið í boði í tiltölulega stuttan tíma er lagt til að þessi frestur verði enn og aftur framlengdur svo að skuldarar fái möguleika á að nýta sér þau úrræði.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, óskaði eftir svörum þess efnis hvort til greina komi að veita lengri frest en þrjá mánuði. Einnig vildi hún vita hvort ekki þyrfti að huga að öðrum eignum skuldara en lögheimili. Hún vildi vita hvað fælist í boðuðum úrræðum. Auk þess sem hún kallaði hún eftir áliti ráðherra á lagafrumvarpi því sem Eygló hafi lagt fram um frestun nauðungasölu og flýtimeðferðar vegna gengistryggðra lána.

Ragna sagði ókostinn við það veita lengri frest þá teldu skuldarar, bankar og stjórnvöld að þau hefðu lengri tíma til þess að leysa úr málum en í reynd. „Við lögðum upp með þetta svona þannig að Alþingi gæfist kostur á að endurmeta stöðuna í maímánuði áður en þingi er frestað,“ segir Ragna. Varðandi hvaða úrræði verið sé að skoða nefndi hún breytingar á úrræðum um greiðsluaðlögun, lög um hópmálssókn og fleira.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði lagafrumvarpið ágætt svo langt sem það næði. Sagði hann áhyggjuefni að nú rúmu ári eftir hrun væri enn ekki búið að leysa vanda skuldsettra heimila, aðeins væri ítrekað búið að skjóta vandanum á frest. Kallaði hann eftir betri úrræðum frá ríkisstjórninni. 

Ragna tók undir með Pétri að frestur væri í sjálfu sér ekki lausn. Sagði hún það hljóta að vera sameiginlegt úrræði Alþingis að finna betri lausnir til handa skuldurum. 

Pétur sagði unnið alltof hægt í stjórnsýslunni. „Það er engin lausn fyrir menn sem eru með allt í hers höndum að fá endalausa fresti. Það þarf að taka á vandanum. Menn þurfa að gera það fyrr en seinna,“ sagði Pétur. 

Ragna ítrekaði að verið væri að endurskoða fram komin úrræði og hvernig þau hefðu reynst. Þannig væri ekki hægt að saka ríkisstjórnina um úrræðaleysi. „Það að gagnrýna okkur fyrir að sitja og gera ekki neitt tel ég sannleikanum ekki samkvæmt.“

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði lausnin auðveldlega geta snúið upp í andhverfu sína enda ljóst að vextir halda áfram að tikka þó uppboði sé frestað. „Við erum alltaf að tala um að ákveðin hluti fjölskyldna er í miklum vanda og þetta frumvarp gagnast þeim, en auk þess er stór hópur heimila sem horfir fram á vaxandi vanda á næstu mánuðum og við þurfum að sjá úrræði til handa þeim hópi. “

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði frumvarpið til marks um að enn væri langt í land í aðgerðum til bjargar heimilunum í landinu. Sagði hann að skýra mætti meiri skuldsetningu íslenskra heimila en víða annars staðar með því að hérlendis væri leigumarkaðurinn lítill og bágborinn og því löngum verið áhersla á að fjölskyldur eignuðust sitt eigið íbúðarhúsnæði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert