Vilja 2,75% álag á vexti

Formenn flokkanna funda í gær um tilboð Breta og Hollendinga.
Formenn flokkanna funda í gær um tilboð Breta og Hollendinga. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bretar og Hollendingar gera ráð fyrir 2,75% álagi ofan á breytilegu vextina, sem þeir leggja til í tilboði sínu til Íslendinga um nýjan Icesavesamning.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þykir íslensku viðræðunefndinni
og forystumönnum flokkanna sem funduðu stíft um helgina, sem þetta sé afar hátt álag.

Bent er á að gangi spár um þróun breytilegra vaxta eftir, gæti vaxtabyrðin orðið mjög mikil þegar líða tekur á samningstímabilið. Að sögn heimildarmanna er samstaða meðal þeirra sem sátu fundina um helgina um að hið nýja tilboð frá Bretum og Hollendingum geti ekki orðið viðræðugrundvöllur um nýjan Icesave-samning, þótt menn séu jafnframt
á því að tilboðið sé hagstæðara en gamli Icesave-samningurinn.

Einn viðmælandi Morgunblaðsins sagði í gærkvöld að stóra spurningin
nú væri sú, hvort Bretar og Hollendingar væru reiðubúnir til þess að fara
í framhaldsviðræður við Íslendinga, en það hefði verið gefið mjög sterklega í skyn í tilboði þeirra frá því á föstudagskvöld að um lokasvar væri að ræða af þeirra hálfu.

Tilboðið felur í sér breytingu á vaxtakjörum, en ekki er hins vegar byggt á þeirri lausn sem samninganefndin hafði lagt fram, en hún gengur út á að ekki þurfi að taka lán fyrir þeim kostnaði sem Bretar og Hollendingar hafa lagt út vegna tapaðra innistæðna á Icesave-reikningunum, heldur verði reynt að láta þrotabú Landsbankans duga.

„Ég held að það hafi verið mjög ofmælt þegar sagt var um tilboðið sem kom fyrir helgi að það væri tilboð sem ekki væri hægt að hafna,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Þetta útspil Breta og Hollendinga er algerlega á skjön við það sem við höfum verið að ræða úti og í raun og veru alveg á skjön við það sem við ræddum í Haag á sínum tíma,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

„Ég ætla að leyfa mér að halda í vonina um að þá náist samkomulag, þangað til annað kemur í ljós,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra eftir fundinn í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert