Halda þarf óþarfa álagi frá dómstólum

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag mikilvægt að halda óþarfa álagi frá dómstólum og fangelsum landsins. Brýnt sé að réttarvörslukerfið ónýtist ekki með því að einbeita sér að málum sem ekki þarf að nota krafta í. Til greina kemur að auka heimildir ákæruvaldsins til að ljúka málum án aðkomu dómstóla.

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði ráðherra hvort farið hafi fram athugun á kostum þess að koma á fót lögreglurétti til að greiða úr minni háttar brotum. Með lögreglurétti á Ólöf við nokkurs konar dómstigi sem tæki á minni brotum, s.s. innbrotum og smápústrum, og er til að mynda við líði í Bretlandi.

Ragna sagði ekki sérstaka athugun hafa farið fram á lögreglurétti en aðrir möguleikar - nánast allir möguleikar - eru skoðaðir. Benti Ragna á lögreglustjórasáttir og sagði koma til greina að auka heimildir til þeirra. Hún sagði mikilvægt að íþyngja ekki dómstólum með málum þar sem játning liggur fyrir og skýr fordæmi um refsiþyngd. Einnig komi til greina að lögfesta sáttamiðlun. Hins vegar verði einnig að tryggja að ekki sé gengið á rétt sakborninga.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert