Veitir ekki upplýsingar um veð

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Seðlabankinn telur sér ekki heimilt að veita upplýsingar um hvaða bankar eða banki hafi sett húsnæðislán sín að veði í Seðlabankanum. Bankinn hefur tekið veð í slíkum lánum í tengslum við lánafyrirgreiðslu til einstakra fjármálafyrirtækja. Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherra um íbúðalán í eigu Seðlabanka Íslands. Því var auðsvarað; „Seðlabankinn hefur ekki eignast nein íbúðalán og því eru engin slík lán á bókum bankans“.

Hins vegar hefur hann eins og áður segir tekið veð í slíkum lánum. Bankinn vísar hins vegar í 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands þegar kemur að því að upplýsa um þau veð.

Í greininni segir: „Bankaráðsmenn, [seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, nefndarmenn í peningastefnunefnd] og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert