Áburðarverksmiðjan dæmd til að greiða skaðabætur

Áburðarverksmiðjan á Gufunesi.
Áburðarverksmiðjan á Gufunesi. mbl.is/Einar Falur

Áburðarverksmiðjan hf. var í Hæstarétti í dag dæmd til að greiða konu  4.178.756 krónur auk vaxta vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir vegna loftmengunar frá verksmiðjunni árið 1998. Áburðarverksmiðjan var einnig dæmd til að greiða í ríkissjóð 1.050.000 krónur vegna málskostnaðar í héraði og 935.145 krónur vegna málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að konan höfðaði mál og krafði verksmiðjuna um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir 30. september 1998 vegna loftmengunar.

Atvik málsins voru þau að Áburðarverksmiðjan ræsti sýruverksmiðju sína í Gufunesi, nálægt heimili konunnar, en við ræsinguna var hleypt út um 510 kg af ammoníaki í tveimur lotum, í formi heitrar gufu.

Talið er að starfsmenn verksmiðjunnar hefðu sýnt af sér saknæma vanrækslu er þeir létu undir höfuð leggjast að vara konuna við losun ammoníaks og annarra loftegunda umræddan dag og gefa rangar upplýsingar í kjölfar þess að hún kvartaði fyrst um loftmengun.

Þá var talið nægilega sannað meðal annars með matsgerð dómkvaddra manna, og sérfræðilegri álitsgerð sem hún var reist á, að þessi losun hefði valdið konunni líkamstjóni.

Áburðarverksmiðjan hf. hefði mátt sjá fyrir að þessar afleiðingar gætu orðið af hinni saknæmu háttsemi starfsamanna hennar og teldust þær því sennilegar. Fallist var á skaðabótaábyrgð verksmiðjunnar og konunni dæmdar bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku.    

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert