Alvarleg brot á brunavörnum

Sjallinn á Akureyri er líklega einn þekktasti skemmtistaður landsins. Honum …
Sjallinn á Akureyri er líklega einn þekktasti skemmtistaður landsins. Honum var lokað í dag vegna alvarlegra brotalama í brunavörnum. Skapti Hallgrímsson

Sjallanum á Akureyri var lokað í dag vegna alvarlegra brotalama í brunavörnum og öryggismálum hússins. Neyðarútgangur reyndist læstur og skrúfaður aftur, aðgengi að öðrum var hindrað auk þess sem búið var að slá út brunaviðvörunarkerfi hússins.

Þorbjörn Haraldsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, kvaðst hafa verið kvaddur í húsið aðfaranótt sunnudags af lögreglunni vegna atviks sem varð þar. Þá var eldgleypir að sýna listir sínar, án þess að heimild væri fyrir því. Eitthvað fór úrskeiðis og brenndist eldgleypirinn lítillega í andliti. 

Þegar flytja átti eldgleypinn út um neyðarútgang bakatil í húsinu var hann skrúfaður aftur og læstur og engin leið að opna hann.  „Ég var kvaddur í húsið því talið var að þar væri öryggi gesta ógnað. Ég fór yfir húsið og þar voru ýmsar brotalamir í eldvörnum,“ sagði Þorbjörn.

Auk fyrrnefnds harðlokaðs neyðarútgangs reyndust hindranir vera í flóttaleiðum að öðrum útgöngum. Þá var búið að slá út brunaviðvörunarkerfi hússins.

Þorbjörn sagði þetta alvarlegt í ljósi alvarlegra slysa sem orðið hafa við eldsvoða á skemmtistöðum, t.d. nýverið í Rússlandi og fyrir nokkru í Gautaborg.  

Reglulegt eftirlit er með brunavörnum samkomuhúsa á borð við Sjallann. Til eru skýrslur um athugasemdir við brunavarnir í húsinu og hafa þær verið ítrekaðar. Þorbjörn sagði að umráðamenn hússins hafi fengið fresti til að lagfæra þau mál en ekki virt frestina.

Nú er Sjallinn lokaður  og verður húsið ekki opnað aftur fyrr en brunavarnir hafa verið teknar út og samþykktar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert