Hugmyndir um áhrif stórlega ýktar

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Skýrsla ESB kemur ekki á óvart og er staðfesting á því sem Landsamband íslenskra útvegsmanna hefur haldið fram um áhrif hugsanlegrar aðildar að sambandinu á sjávarútveginn á Íslandi. Þetta er mat Friðriks J. Arngrímssonar, framkvæmdastjóra LÍÚ um greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aðildarumsókn Íslands að ESB, sem  kynnt var í gær.

Á vefsíðu LÍÚ kemur fram að Friðrik telji ummæli utanríkisráðherra í fjölmiðlum í gær í litlu samhengi við raunveruleikann. Þar gaf ráðherra í skyn að Ísland yrði áhrifavaldur í sjávarútvegsmálum innan ESB kæmi til aðildar.  „Reynslan hefur kennt okkur að hugmyndir um ætluð áhrif okkar á sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eru stórlega ýktar," segir Friðrik.

Í niðurstöðum skýrslunnar komi skýrt fram, að komi til aðildar að ESB þurfi Ísland að gangast undir sameiginlega fiskveiðistefnu sambandsins. „Skýrslan staðfestir að við missum forræðið yfir fiskimiðunum. Einnig þyrftum við að laga okkur að reglum sambandsins um jafnan aðgang að fiskimiðum, jafnframt því sem afnema þyrfti takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi á Íslandi. Síðast en ekki síst er staðfest í skýrslunni að við yrðum að framselja allt fyrirsvar á á alþjóðavettvangi í hendur ESB," segir Friðrik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert