Leynifundur um Icesave í London

Bretar báðu um leynilegan fund.
Bretar báðu um leynilegan fund. REUTERS

Íslenska samninganefndin í Icesave-málinu er aftur farin til London. Þegar hluti íslensku sendinefndarinnar var rétt lent í Keflavík í gær, höfðu Bretar samband við íslensku sendinefndina, báðust afsökunar á því hvernig viðræðurnar fóru og báðu um að „leynifundur“ yrði haldinn í dag.

Höfðu samband „í afsökunartóni“

Á síðasta fundi íslensku samninganefndarinnar með Bretum, sögðust Bretarnir ekki hafa umboð til að líta á hugmyndir Íslendinga, en lögðu hart að íslensku samninganefndinni að skoða síðasta tilboð Breta og Hollendinga betur. Á það féllst ekki íslenska samninganefndin, og fóru viðræðurnar því út um þúfur.

Þegar hluti samninganefndarinnar var ný lent á Keflavíkurflugvelli, höfðu Bretar samband - „í afsökunartóni“ eins og viðmælandi mbl.is orðar það - og sögðu leitt að breska samninganefndin skyldi ekki hafa haft umboð til að líta á tillögur Íslendinga.

Báðust afsökunar á fjölmiðlaleka

Jafnframt var beðist afsökunar á fjölmiðlaleka sem hafði átt sér stað af hálfu Breta, og sögðust Bretarnir hafa leiðrétt fréttir af því að íslenska nefndin hafi gengið út. Samkvæmt heimildum mbl.is hafði íslenska samninganefndin kvartað yfir því við bresk stjórnvöld, að bresku viðsemjendurnir hefðu skipulega sent fjölmiðlum ósannar lýsingar á viðræðunum, til að reyna að stjórna fjölmiðlaumræðunni

Ráðgjafi Íslendinga í deilunni telur raunar að ástæða þess að Bretar hafi samband núna, sé sú að tilraun til að koma af stað ákveðinni fjölmiðlaumræðu hafi mistekist, en fjölmiðlaumfjöllun t.d. í mörgum virtum breskum fjölmiðlum var Íslendingum alls ekki óvinveitt eftir að viðræður fóru út um þúfur.

Eftir því sem mbl.is kemst næst er einungis um viðræður við Breta að ræða - ekki Hollendinga - sem mögulega stafar af stjórnmálaástandinu í Hollandi. Bretar leggja áherslu á að fundirnir, sem hefjast í dag, fari leynt fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert