Times: Hætta á einangrun Íslands

Leiðtogar stjórnmálaflokkana ákváðu að hafna tilboði Breta og Hollendinga
Leiðtogar stjórnmálaflokkana ákváðu að hafna tilboði Breta og Hollendinga mbl.is/Golli

Hætta er á að Ísland einangrist eftir að viðræður Íslendinga við Hollendinga og Breta sigldu í strand, segir á vef breska blaðsins Times. Þar kemur fram að óvíst sé með að Ísland fái greitt úr sjóðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lán frá hinum Norðurlöndunum. Þetta stofni einnig aðildarumsókn að Evrópusambandinu í hættu en allt þetta sé talið lykilatriði hvað varðar endurreisn landsins.

Times segir að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, vonist til þess að samkomulag náist fljótlega við Breta og Hollendinga.

Times rifjar upp frétt sína um að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, hafi verið varaður við af Nicholas Macpherson, ráðuneytisstjóra breska fjármálaráðuneytisins, um að ekki væri víst að breskir skattgreiðendur fengju fé sitt til baka frá Íslandi. Darling hafi hunsað viðvaranir Macpherson.

Þetta kemur fram í bréfum, sem Frjálsi demókrataflokkurinn hefur fengið í hendur og sýnt blaðinu The Times. Greint er frá þessu í frétt á mbl.is þann 19. febrúar sl.

Þar lýsir Macpherson yfir miklum efasemdum um að bresk stjórnvöld ættu að nota opinbert fé til að greiða eigendum breskra Icesave-reikninga það fé sem þeir höfðu lagt inn á reikningana og sagði óljóst hvort breska ríkið myndi endurheimta þessa peninga. Englandsbanki lýsti sömu skoðun en Darling tók þá ákvörðun að tryggja innistæðurnar og skilgreina það sem lán til Íslands.   

Þá varaði Macpherson við því, að ekki væri víst að íslensk stjórnvöld væru fús að tryggja að Bretar fengju umrædda upphæð endurgreidda. 

Darling svaraði sama dag og sagðist myndu veita íslenskum stjórnvöldum lánið. Hafi hann tekið með í reikninginn þann trúnaðarbrest sem orðið hefði á milli bankakerfisins og viðskiptavina þess þegar hann tók þessa ákvörðun.

Þá segir hann, að fyrir liggi skrifleg staðfesting íslenskra stjórnvalda um að þau muni standa við skuldbindingar sínar í samræmi við evrópskar reglur um innistæðutryggingar.  

Í frétt Times í dag kemur fram að talsmaður breska fjármálaráðuneytisins segi að Bretar eigi rétt á að fá allt það fé sem breskir skattgreiðendur lánuðu Íslendingum endurgreitt. Skilmálar tilboðsins sem Íslendingar hafi nú hafnað séu það besta sem hægt sé að bjóða og að þau telji að það sé Íslendingum fyrir bestu að samþykkja tilboðið.

Frétt Times í dag

Frétt Times frá 19. febrúar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert