Jóhannes segir fréttina ranga

Einbýlishús Jóhannesar Jónssonar á Flórída.
Einbýlishús Jóhannesar Jónssonar á Flórída.

Jóhannes Jónsson, jafnan kenndur við Bónus, segir í fréttatilkynningu að frétt Morgunblaðsins frá því í gær sé röng en í fréttinni er fjallað um fasteignaviðskipti hans í Flórída.

„Í Morgunblaðinu í gær er enn einu sinni vegið að mannorði mínu. Í þetta sinn eru það dylgjur um að ég sé að skjóta undan eignum og á flótta undan skuldheimtumönnum. Hvort tveggja er rangt, enda engir skuldheimtumenn á eftir mér.

Morgunblaðið hefur á undanförnum mánuðum birt tæplega 300 greinar sem hafa þann tilgang einan að veitast að fjölskyldu minni og snúa þjóðinni gegn mér. Á sama tímabili hefur áskrifendum blaðsins fækkað um rúmlega 15.000," segir í fréttatilkynningu frá Jóhannesi.

Frétt Morgunblaðsins 

Jóhannes Jónsson, jafnan kenndur við Bónus, borgaði 1,85 milljónir dollara fyrir 620 fermetra einbýlishús á Flórída 14. ágúst 2008, um það bil sex vikum fyrir bankahrunið. Íslenska krónan var á þeim tíma mun hærra skráð en í dag, en þá jafngilti kaupverðið um 150 milljónum króna.

Fasteignaverð hefur lækkað umtalsvert á Flórída síðan í ágúst 2008, og er húsið nú metið á ríflega 1,5 milljónir dollara. Í krónum talið hefur verðmæti þess engu að síður aukist og nemur um 193 milljónum króna.

Jóhannes keypti húsið í gegnum einkahlutafélagið Sunnubjörg ehf., samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá Orange-sýslu í Flórída. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 voru bókfærðir fastafjármunir 178 milljónir króna. Engar aðrar eignir eru í félaginu á þeim tíma sem reikningurinn er gerður, og því má gera ráð fyrir að einbýlishúsið sé eina eign félagsins.

Hinn 11. nóvember 2009 er félagið hins vegar fært yfir í bandarískt félag að nafni The Johannes Jonsson Trust. Ekkert fé kemur við sögu í þeim viðskiptum, enda um eignatilfærslu tengdra félaga að ræða.

Umsýslukostnaður upp á samtals 100 dollara var þó greiddur. Samkvæmt bandarískri löggjöf er eigandi hússins því í skjóli frá kröfuhöfum vegna skuldbindinga í öðrum löndum en Bandaríkjunum.

Morgunblaðið náði tali af Jóhannesi Jónssyni í gær, en hann vildi ekki tjá sig um málið. Einbýlishúsið sem um ræðir er útbúið þremur bílskúrum, stórri sundlaug, sex baðherbergjum og útieldhúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert