Án samráðs við stjórnarandstöðu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Steingrímur J. Sigfússon á Alþingi. Heiðar Kristjánsson

„Þessar svokölluðu óformlegu viðræður fara fram án samráðs við stjórnarandstöðuna og eru bara á vegum fjármálaráðherra,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins um viðræðurnar sem nú fara fram í London um Icesave.

„Miðað við hvernig fjárráðherrann talar sýnist mér þær snúast fyrst og fremst um það sameiginlega markmið ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Hollands, að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu heldur en samningsniðurstöðuna,“ segir Sigmundur Davíð.

Sigmundur Davíð segir að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að nú sé tækifærið til að semja dæmalausar. „Hver segir svona í miðjum samningaviðræðum?“

Sigmundur Davíð segist ekki hafa hugmynd um hvað verið sé að ræða í London þessa stundina. Hann segir að Lee Buchheit hafi sagt á fundi fyrir skömmu, að það væri stórhættulegt að ljá máls á því að fresta eða hætta við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún væri okkar sterkasta vopn. Samt hafi forsætisráðherra og fjármálaráðherra ýjað að því hvað eftir annað að það kæmi til greina. „Þess vegna óttast ég að þessar viðræður núna snúist um það sameiginlega markmið að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert