Helmingur þjóðar vill kjósa um nýja samninga

Helmingur þjóðarinnar vill kjósa aftur um Icesave verði nýir samningar gerðir við Breta og Hollendinga. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar MMR (Markaðs- og miðlarannsókna ehf.) sem framkvæmd var dagana 3.-5. mars 2010. Heildarfjöldi svarenda 932 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

MMR kannaði afstöðu fólks til þess hvort það vildi að ákvarðanataka vegna nýrra Icesave samninga yrði eingöngu í höndum Alþingis eða hvort það vildi að slíkir samningar væru bornir aftur undir þjóðaratkvæði.

Af þeim sem tóku afstöðu voru í heild 49,5% sem sögðu að nýr Icesave samningur yrði líka sendur í þjóðaratkvæði en 50,5% sögðust vilja að nýr samningur yrði eingöngu afgreiddur af Alþingi. Samtals tóku 75,7% afstöðu til spurningarinnar.

Í könnuninni var einnig spurt um hvað fólk hygðist kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave- lögin sem fram fór laugardaginn 6. mars síðast liðinn. Þá kom fram að 95,2% hugðust greiða atkvæði á móti Icesave lögunum en 4,8% hugðust greiða atkvæði með þeim. Samtals tóku 70,4% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust óákveðnir (14,2%), myndu skila auðu (3,3%), myndu ekki kjósa (8,0%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (4,1%).

Séu svör við spurningunni um aðrar Icesave kosningar skoðuð eftir lýðfræði svarenda kemur í ljós nokkur munur milli hópa. Þannig voru t.d. 60,0% svarenda undir þrítugu sem sögðust aðhyllast aðra þjóðaratkvæðagreiðslu samanborið við 36,7% þeirra sem voru 50-67 ára.

Séu svör greind eftir meintri afstöðu þeirra í Icesave kosningunum í gær kemur í ljós að eingöngu 10% þeirra sem sögðust ætla að kjósa „Já“ voru þeirrar afstöðu að gengið yrði til þjóðaratkvæðis á ný ef gerður yrði annar Icesave samningur við Breta og Hollendinga. Af þeim sem sögðust ætla kjósa „Nei“ voru aftur á móti 60,7% sem sögðust vilja að haldin yrði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um mögulegan nýjan Icesave samning við Breta og Hollendinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert