Gríðarlegur endurnýjunarþróttur í atvinnulífinu

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, sagði á Alþingi í dag, að gríðarlegur endurnýjunarþróttur væri í atvinnulífinu þótt hér ríkti í raun tvíburakreppa, bæði fjármálakreppa og gjaldeyriskreppa.

„Upplýsingar um ný störf, sem eru að verða til í nýjum greinum, svo sem hátækni- og nýsköpunarfyrirtækjum og hjá skapandi greinum gefa vísbendingu um þetta. Tölvuleikjaiðnaðurinn, sem er ný grein í íslensku atvinnulífi, hefur vaxið hratt og það eru að verða til hundruð starfa á þessu sviði," sagði Katrín. „Þessi þróun heldur bara áfram," sagði Katrín og bætti við að störfum í vísindastarfsemi hefði fjölgað um 14% á einu ári.

Katrín sagði að verkefnin væru fjölmörg og ríkisstjórnin setti atvinnulífið í forgang með almennum og sértækum aðgerðum.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðu utan dagskrár um atvinnumál og sagði ef skapa mætti þau 35 þúsund störf sem yrðu að verða til á næstu árum þyrfti 5% árlegan hagvöxt til ársins 2015. Til þess þyrfti erlenda fjárfestingu og orkufrek verkefni sem sköpuðu útflutningsverðmæti.

Þess í stað væri hér mikið atvinnuleysi, fólksflótti væri frá landinu og í gildi væri stöðugleikasáttmáli sem gengi undir nafninu kyrrstöðusáttmáli. Þolinmæði aðila vinnumarkaðarins væri á þrotum. Sjávarútvegur væri að stoppast og fiskvinnslan einnig. Vandi heimilanna væri óleystur og viðræðum við áhugasama orkukaupendur væri lokið.

Katrín sagði að fjölmörg verkefni væru í gangi og hér myndi skapast mikill fjöldi af fjölbreyttum störfum til að vinna bug á atvinnuleysisbölinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert