Lögreglumenn mótmæla

Lögreglumenn mótmæla við hús ríkissáttasemjara.
Lögreglumenn mótmæla við hús ríkissáttasemjara. mbl.is/Júlíus

Lögreglumenn hafa safnast saman við húsakynni ríkissáttasemjara við Borgartún í Reykjavík en þar er að hefjast  samningafundur í kjaraviðræðum Landssambands lögreglumanna  og ríkisins. Kjarasamningar lögreglumanna hafa nú verið lausir í 281 dag.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagðist í dag hafa heyrt af fyrirhuguðum mótmælum en  þau væru ekki að undirlagi sambandsins heldur sprottin upp úr grasrótinni. 

Gerður var kjarasamningur sem var felldur í ágúst 2009 með yfir 90% greiddra atkvæða. Þá var kjaradeilunni vísað til Ríkissáttasemjara. Fundurinn í dag er sá fimmti sem haldinn er með viðsemjendum í þessari lotu.

Snorri sagði að áður en að kjaraviðræður hófust undir merkjum stöðugleikasáttmálans hafi lögreglumenn fengið á sig 15.000 kr. launalækkun á mánuði. 

Á heimasíðu Landssambands lögreglumanna er gerð skoðanakönnun um hvort þátttakendur myndu samþykkja verkfallsboðun ef lögreglumenn hefðu verkfallsrétt. Nú hafa 193 tekið þátt og af þeim myndu 182 vilja boða verkfall en 10 ekki. Einn hefur ekki skoðun á málinu.

Lögreglumenn í Borgartúni í dag.
Lögreglumenn í Borgartúni í dag. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert