Fjárhættuspil fyrir börn

Ásthildur Bragadóttir keypti 1000 króna gsm inneign fyrir dóttur sína í þeirri trú að hún gæti einungis eytt fyrrnefndri upphæð. Það kom henni því töluvert á óvart að fá um 6.300 króna símareikning eftir að dóttir hennar tók þátt í sms-leik þar sem fullyrt var að tíunda hvert sms hlyti vinning. Klukkutími líður áður en gjaldfært er af gsm inneigninni og gat dóttirin því sent fjölda sms skilaboða, sem hvert kostar 149 krónur áður en inneignin tæmdist. 

 Ásthildur segir einskonar fjárhættuspil fyrir börn og auglýsingar beinist að þeim.

ATHUGASEMD frá D3 sett inn klukkan 15:50

„D3 sér um viðkomandi leik fyrir Elko sem og mörg önnur fyrirtæki í landinu, en D3 er stærsti þjónustuaðili virðisaukandi þjónustu fyrir farsíma.
 
Það vandamál sem lýst er í nýtilkominni frétt um að viðskiptavinir með frelsi geti stofnað til skuldar, er aðeins að hluta rétt. Hjá öllum símfyrirtækjum (Síminn / Vodafone / Nova) fyrir utan Tal er ekki hægt að taka þátt nema að inneign sé til staðar. Viss vandamál hafa verið viðvarandi hjá Tali varðandi að staðfesta stöðu inneignar á rauntíma og höfum við skoðað þetta með starfsfólki Tals. Tæknileg vandamál eru á ábyrgð Tals og því getur D3 ekki lagfært vandann. Við höfum bent þeim á að við teljum ekki rétt að senda reikning á viðskiptavini þeirra þegar svona mál koma upp, þar sem viðskiptavinurinn er að tryggja sig fyrir því að reikningar fari ekki yfir ákveðna upphæð. Í mörgum tilfellum eru foreldrar að skammta börnum sínum frelsisnotkun og telja sig örugga um að notkunin fari ekki fram úr hófi.
 
Viljum við einnig koma því á framfæri að það er ekki ætlun D3 eða samstarfsaðila okkar að vera með svokölluð „fjárhættuspil“ fyrir börn.
Við teljum þetta vera skemmtilega leið til að markaðssetja vöru og gefa fólki tækifæri á að vinna sér inn áhugaverða glaðninga. D3 leggur sig fram við að kynna vel hvað felst í þátttöku t.d. með því að birta alltaf verð á leikjum, hverjar líkurnar eru á að vinna og hver vinningurinn er. Við leggjum mikið upp úr því að viðskiptavinir okkar átti sig á formi leiksins.
 
Einnig hvetjum við foreldra til að útskýra fyrir börnum sínum svona þjónustur, þá er átt við þjónustur sem eru á yfirverði, svokallaðar virðisaukandi þjónustur, þar sem gífurleg aukning er á framboði slíkrar þjónustu í dag t.a.m kosningar fyrir Eurovision, styrktarlínur fyrir Rauða Krossinn o.s.frv.
 
Varðandi SMS sem viðkomandi fékk, þar sem leikur er auglýstur þá er skýringin sú að þeir sem taka þátt í SMS leikjum fara í SMS Klúbb og því fá þeir af og til SMS um leiki sem þessa. Þetta er tekið fram á öllum auglýsingum svo að fólk viti af þessu. Ef fólk vill afskrá sig úr SMS klúbbnum  getur það haft beint samband við okkur eða við símfyrirtæki sitt og óskað eftir að vera afskráð. Þegar við fáum ósk um afskráningu þá setjum við viðkomandi farsímanúmer á lista frá okkur og í framhaldi fær viðkomandi ekki SMS frá okkur. Ef viðkomandi vill afskrá sig er hægt að senda okkur vefpóst ásms@d3.is .
 
Eftir þessa frétt höfum við sent bréf á Tal og lýst því yfir að við munum loka fyrir aðgang viðskiptavina þeirra að þjónustum okkar ef þeir ná ekki að lagfæra þennan vanda. Við höfum veitt þeim nokkurra daga frest til þess og  samkvæmt nýfengnum upplýsingum þá eru þeir komnir með sitt tæknifólk í málið og vinna nú að því að endurbæta kerfið.
 
Við vonum að þetta varpi réttu ljósi á þessa ferla og leiðrétti þann misskilning að öll frelsisnúmer geti stofnað til skuldar og að þetta geti kallast „fjárhættuspil“ fyrir börn," segir í athugasemd frá D3.

Athugasemd frá Tali sett inn 11. mars kl. 16:50

Varðandi frétt sem birt var á mbl.is þann 10.mars „Fjárhættuspil fyrir börn“, vill Tal koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

Tal hefur um langt skeið leitað leiða til að loka fyrir þjónustu á borð við þá sem D3 býður viðskiptavinum upp á. Frá og með gærdeginum hefur Tal, eitt fjarskiptafyrirtækja,  ákveðið að hætta með öllu samstarfi við D3 og gert viðeigandi ráðstafanir þess efnis.

Það er rétt sem fram kemur að upp hafa komið tæknileg atvik varðandi stöðu frelsis -inneignar á rauntíma, en þau mál eru í vinnslu.

Um leið og Tal harmar þetta tiltekna atvik fagnar fyrirtækið því að viðskiptavinir Tals geti héðan í frá verið vissir um að vera ekki gjaldfærðir vegna þjónustu D3.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert