Skýr skilaboð í Icesave-könnun

Stjórnarandstaðan á fundi með leiðtogum ríkisstjórnarinnar.
Stjórnarandstaðan á fundi með leiðtogum ríkisstjórnarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna segja niðurstöðu könnunar MMR ekki koma sér á óvart, þess efnis að um 60% aðspurðra töldu að Íslendingum bæri alls ekki að ábyrgjast greiðslur til innistæðueigenda Icesave í Bretlandi og Hollandi. Niðurstaðan sendi skýr skilaboð til stjórnvalda.

„Staðreynd málsins er að okkur ber engin lagaleg skylda til að ábyrgjast þessar greiðslur, sem mér heyrist reyndar fjármálaráðherra meira að segja farinn að segja sjálfur. Uppleggið, sem allir flokkar samþykktu, var að nýta þrotabú Landsbankans sem mest til að standa straum af greiðslum til Breta og Hollendinga, eins og þeir eiga rétt á samkvæmt lögum. Mér finnst mikilvægt að menn haldi sig við þá nálgun sem mörkuð var í upphafi, og hefur ekki verið vikið frá, að minnsta kosti af hálfu stjórnarandstöðunnar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Búa í skattaskjólinu London

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, segir könnun MMR endurspegla það sem hún og fleiri hafi verið að boða. Markmiðið hafi alltaf verið að ekki ætti að borga krónu af þessum Icesave-skuldum, heldur reyna að ná þessum fjármunum með öllum tiltækum leiðum úr gamla Landsbankanum.

„Svo finnst mér furðulegt hvað lítil áhersla er lögð á að reyna að ná þessu af þeim sem efndu til þessarar skuldar. Þeir búa bara í vellystingum í London, því ágæta skattaskjóli, en London er víst á lista yfir topp-fimm skattaskjól heimsins,“ segir Birgitta. Hún telur yfirhöfuð mikið vafamál hvort innistæðusjóðir sem þessir séu ríkistryggðir, og þá hvort önnur lönd séu tilbúin til að gera slíkt hið sama. „Það yrði ekkert mjög gott fordæmi ef við færum að ríkisvæða tryggingasjóði innistæðueigenda," segir hún.

Afgerandi skilaboð

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur undir með Sigmundi og Birgittu. Lesa megi út úr könnuninni mjög afgerandi skilaboð og skýr skilaboð. „Þegar þessi könnun er lesin með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þá hljóta menn að spyrja sig hvort að ríkisstjórnin sé í takti við þjóðina. Mér finnst vanta mikið upp á að ríkisstjórnin svari því hvað hún telji vera sanngjarnan og ásættanlegan samning,“ segir Bjarni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert