Ræddi við þingnefnd um ESB-umsókn

Jóhanna og þýsku þingmennirnir í dag.
Jóhanna og þýsku þingmennirnir í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra átti í dag fund með sendinefnd frá Evrópunefnd þýska þingsins. Nefndin mun fjalla um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, áður en kanslari Þýskalands tekur afstöðu til umsóknarinnar á fundi leiðtoga Evrópusambandsins.

Forsætisráðuneytið segir í tilkynningu, að á fundinum hafi komið fram að mikil jákvæðni sé í þýska þinginu gagnvart aðildarumsókn Íslands en ferli mála taki almennt lengri tíma en svo að niðurstaða verði fengin áður en næsti fundur leiðtogaráðs Evrópusambandsins verður haldinn, 25.-26. mars.  

Að sögn ráðuneytisins var  rætt um stöðu mála varðandi aðildarumsóknina og afgreiðslu hennar, stöðu Íslands í efnahagsmálum og samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um uppbyggingu efnahagslífsins. Jóhanna  áréttaði að staða mála varðandi Icesave-samningaviðræður ætti ekki að hafa áhrif á öðrum vettvangi og væri tvíhliða málefni sem yrði leyst í því samhengi.

Þá sagði Jóhanna, að Ísland hefði mikið fram að færa, meðal annars á sviði jafnréttismála, umhverfismála og ekki síður með menningu sinni og sögu. Þekking og reynsla Íslands í nýtingu sjálfbærra auðlinda, einkum hvað varðar sjávarútveg og endurnýjanlega orkugjafa, ætti að vera eftirsóknarverð og hugsanlega fyrirmynd að stefnumörkun fyrir Evrópusambandið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert