Hvalaforhúð í Vopnabúrinu

Þeir sem fara í Vopnabúrið eru ekki líklegir til að koma þaðan út með byssu í hönd en gætu haft þaðan með sér seðlaveski úr hvalaforhúð.

Sruli Recht hefur búið hér og starfað síðastliðin fimm ár en fyrir einu og hálfu ári tókst honum að sannfæra kærustu sína, Megan Herbert, um að flytja frá Ástralíu til sín á klakann. Síðastliðið haust opnuðu þau svo verslun og vinnustofu úti á Granda þar sem þau sýna og selja hönnun sína.

Megan hefur aðallega hannað ýmiskonar pappírsvörur, svo sem gjafapappír, gjafakort og fleira. Vörur Sruli eru af nokkru öðru sauðahúsi en hann hannar fatnað, skó, fylgihluti, skartgripi og ýmsa aðra muni. Margir þeirra eiga það sameiginlegt að vera úr óvenjulegum efnivið, svo sem steypu, hvalaforhúð og blóði drifnu bómullarklæði.

Í læstum glerskáp má sjá skópar sem kostar tæplega tvær milljónir króna, glerskrifunarpenna með demantsoddi og hring sem þrír ólíkir og óslípaðir demantar fylgja svo hægt sé að skipta þeim út eftir vild. Sérhannaðar pappaöskjurnar vekja ekki síður athygli en þær hefur Sruli gert í samvinnu við Snorra Má Snorrason.

Sruli er jákvæður í garð kreppunnar og segir að með henni hafi íslenskir hönnuðir farið að líta í eigin barm, sem hafi orðið til þess að íslensk hönnun tók að blómstra.

Undir þetta tekur Megan sem segir að þrátt fyrir þrengri fjárhag Íslendinga en áður gangi verslunin og vinnustofan vonum framar auk þess sem vel gengur að selja vörurnar í gegn um heimasíðu þeirra.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert