Keppin um Landspítala hafin

Fimm hönnunarteymi, sem urðu hlutskörpust í forvali um hönnun nýs Landspítala, hafa fengið afhent keppnisgögn frá Ríkiskaupum. Keppnistillögurnar eiga að liggja fyrir 10. júní 2010 og hefur heilbrigðisráðuneytið skipað dómnefnd sem á að kynna niðurstöðuna 9. júlí 2010.


Áætlaður kostnaður við nýbyggingu Landspítalans er um 33 milljarðar króna á verðlagi í mars 2009. Standa vonir til að framkvæmdir við hana geti hafist sumarið 2011 og er áætlað að þær standi fram á árið 2016.

Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar nýs Landspítala, segir að miðað við verkáætlunina sé raunhæft að hefja framkvæmdirnar næsta sumar því gert sé ráð fyrir því að hvorki hönnunarteymin né dómnefndin fái frest. „Þannig að 5. ágúst á að vera hægt að gera samninga við hönnunarteymið upp á 700-800 milljónir. Fyrir þann tíma þarf að vera tryggt að fjármögnunin fyrir hönnunarhluta verksins liggi og lífeyrissjóðirnir hafa lýst því yfir að þeir vilji fjármagna það. Næsta vor þarf síðan fjármögnun upp á þessa 33 milljarð og lífeyrissjóðirnir hafa einnig lýst því yfir að þeir séu tilbúnir í þá fjármögnun.“

Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að samkeppnin taki annars vegar til áfangaskipts skipulags lóðar Landspítala við Hringbraut í heild og hins vegar til útfærslu á 66 þúsund fermetra nýbyggingu spítalans. Meðal þess sem hanna á eru legudeildir með 180 rúmum sem öll eru í einbýli og sjúklingahótel með 80 herbergjum.  „Hluti af verkefninu verður einnig að skoða frumhönnun á 10.000 fermetra byggingu fyrir Háskóla Íslands.“

Í dómnefndinni sitja Guðrún Ágústsdóttir, fv. forseti borgarstjórnar og formaður skipulagsnefndar Reykjavíkur, sem er formaður dómnefndar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson forseti borgarstjórnar. Tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands eru Finnur Björgvinsson FAÍ, Sigríður Ólafsdóttir FAÍ og Jakob Líndal FAÍ. Tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands er Aðalsteinn Pálsson verkfræðingur. Tilnefnd af Háskóla Íslands er Sigurlaug Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og tilnefnd af Landspítala eru þau Anna Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, og Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga. Ritari dómnefndar er Ásdís Ingþórsdóttir arkitekt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert