Saka Árna Pál um ódýrt útspil

Árni Páll Árnason á ársfundi ASÍ.
Árni Páll Árnason á ársfundi ASÍ. mbl.is/Golli

Samtök lánþega undrast hugmyndir félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, sem hefðu í för með sér að gengistryggðir bílasamningar yrðu eftir forskrift stjórnvalda lækkaðir í 110% af áætluðu söluandvirði bifreiðar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum.

Þar segir að samtökin vilji benda ráðherra á, að nú þegar hafi dómstólar tekið málið til meðferðar og að flest bendi þegar til að gengistryggð lán standist ekki lög. Því sé erfitt að átta sig á hverra hagsmuna ráðherrann sé að gæta með þessu útspili. Að mati samtakanna gagnist þessi leið fyrst og fremst fjármögnunarfyrirtækjunum sjálfum og virki því í fljótu bragði sem ódýrt útspil þess sem vilji slá sig til riddara án þess að eiga alveg fyrir því.

„Vilji ráðherrann vinna að hagsmunum lánþega og þar með fólksins í landinu benda Samtök lánþega á fyrri yfirlýsingar hvar þess er krafist að stjórnvöld bregðist þegar við fordæmalausri aðgangshörku við innheimtu gengistryggðra lánasamninga sem ekki fá staðist lög,“ segir í yfirlýsingunni.

„Samtök lánþega telja einsýnt að fari stjórnvöld þá leið sem félagsmálaráðherra ýjar að, þá lendi allt tjón sem skapast af óvönduðum vinnubrögðum við samningsgerð fjármögnunarfyrirtækja, á skattgreiðendum. Sýni ráðherrann aftur á móti þann kjark að treysta dómstólum til að dæma eftir lögum þá mun tjónið lenda á kröfuhöfum fjármögnunarfyrirtækjanna og vilja Samtök lánþega ítreka að þar á tjón af völdum óvarlegrar fjármálastjórnunar banka og fjármálastofnana að lenda.“ Þá geti kröfuhafar sótt rétt sinn með málshöfðun á hendur fjármálastofnunum og stjórnendum þeirra telji þeir vinnubrögðin óvönduð og ólögmæt.

„Samtök lánþega hvetja því til þess að allri réttaróvissu um gengistryggð lán verði eytt áður en gripið er til aðgerða sem hugsanlega hafa þá afleiðingu eina að íþyngja lánþegum og skattgreiðendum enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert