Spyr um leikreglur við niðurfellingu skulda

„Það hljóta að gilda einhverjar leikreglur þegar kemur að skuldaniðurfellingu. Það hefur orðið hrun. Þetta eru hamfarir og það er verið að reyna að laga til þannig að fólk geti haldið áfram að búa hérna og starfrækja fyrirtæki. Það getur ekki verið að mál séu afgreidd með þeim hætti að niðurstaðan ráðist af því undir hvaða ljósstaur maður stendur,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Líflands.


Arion banki hefur samþykkt að lækka skuldir Fóðurblöndunnar niður í um tvo milljarða, en fyrirtækið skuldaði 5,1 milljarð í árslok 2008. Á móti ætla hluthafarnir að koma með 600 milljónir í aukið eigið fé. Helsti samkeppnisaðili Fóðurblöndunnar er Lífland.


Bergþóra sagði að það væri að sjálfsögðu jákvætt að bankarnir væru að taka á skuldavanda fyrirtækja og heimila, en það væri full ástæða til að hafa áhyggjur af framkvæmdinni. „Maður hlýtur að gera þá kröfu til bankanna að það sé gert með sama hætti fyrir alla og þau hagi sér eins gagnvart fyrirtækjunum.“

Bergþóra sagði að í ársreikningum fóðurfyrirtækjanna kæmi fram að eiginfjárhlutfall Líflands og Fóðurblöndunnar hefði verið svipað í árslok 2008. Þá var eiginfjárhlutfall Fóðurblöndunnar 12% og Líflands 15%. „Það segir sig sjálft að  þegar Fóðurblandan fær u.þ.b. 60% eftirgjöf á skuldum ef miðað er við heildarskuldir  og koma á móti með 12% í nýtt hlutafé, að ef við eigum ekki að njóta sambærilegra kjara þá felur það í sér afar skekkta samkeppnisstöðu. Ég hlýt að gera þá kröfu að bankarnir skekki ekki alvarlega samkeppnisstöðu fyrirtækja í svipuðum greinum.“

Bergþóra sagðist hafa kannað hjá viðskiptabanka Líflands hvort fyrirtækið gæti fengið felldar niður skuldir líkt og Fóðurblandan og standa þær viðræður enn yfir. Þó er óhætt að segja þunglega hafi verið tekið í viðlíka lausn og raunin varð í tilfelli Fóðurblöndunnar.en fengið þau svör að það væri ekki í boði.


Þess má geta að nýlega kom fram í fréttum að Sláturfélag Suðurlands, sem einnig er í fóðurinnflutningi, hefði fengið felldar niður skuldir sem nema 575 milljónum.


Bergþóra sagðist reikna með að Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið hefðu eftirlit með þessu. Það hljóti að vera verkefni þeirra að tryggja að fyrirtækin séu skilin eftir samkeppnishæf gagnvart hvort öðru.
Lífland hefur staðið í miklum fjárfestingum, en fyrirtækið er á næstu vikum að taka í notkun nýja fóðurverksmiðju á Grundartanga. Framkvæmdirnar eru fjármagnaðar að stórum hluta með sölu eigna í Reykjavík. Bergþóra sagði að Lífland væri í svipaðri stöðu og flest fyrirtæki í landinu. Á því hvíldu skuldir í erlendri mynt sem hefðu næstum tvöfaldast með hruni krónunnar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert