Eldur í Sandgerði

mbl.is/Júlíus

Tuttugu og fimm slökkviliðsmenn slökkviliðs Sandgerðis slökktu eld í gömlu fiskimjölsverksmiðjunni í Sandgerði í nótt. Útkallið barst klukkan 04.03 og var eldurinn slökktur nú rétt fyrir sjö leytið. Hann var ekki mikill en húsið var fullt af reyk. Sveinn Einarsson, slökkviliðsstjóri, segir reykskemmdir miklar, burðarbitar í þakið séu líklegast ónýtir.

„Slökkvistarfið gekk mjög vel. Þó tók smá tíma að finna upptökin en reykskemmdir eru miklar. Eldurinn var í miðju húsinu og er lögreglan að rannsaka málið,“ segir Sveinn. Liðsauki barst frá Brunavörnum Suðurnesja.

Fiskimjölsverksmiðjan er um 1.500 til 2.000 fermetrar, einn geimur og mikið af dóti er inn í geymslunni. Húsið hefur verið í endurbyggingu.

Rannsóknarlögreglumaður er á vettvangi. Fréttamiðillinn Vísir fullyrðir að kveikt hafi verið í og merki hafi verið um innbrot. Lögreglan vildi ekki staðfesta það að svo stöddu.

Um miðjan síðasta mánuð barðist slökkviliðið við eld í Skinnfiski í Sandgerði. Mikill eldur logaði þá í fiskikörum sem stóðu upp við húsið og nokkrar skemmdir urðu á húsinu. Þá var kveikt í.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Sigurbjörg Eiríksdóttir: Eldur
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert